Stór dagur hjá Hafnfirðingum á degi sjómanna

Skinna.is vill byrja á því að óska Hafnfirðingum og öllum landsmönnum til hamingju með daginn. Dagurinn í dag er einstakliega ánægjulegur en Hafnrannsóknarstofnunin er flutt í fjörðinn. ,, Starfsmenn Hafrannsóknastofnunar yfirgáfu Skúlagötu 4 með tákrænum hætti 5. júní með ráðherra, ráðuneytisstjóra og forstjóra Hafrannsóknastofnunar í broddi fylkingar. För var heitið niður að Reykjavíkurhöfn og stigið var um borð í rannsóknaskipin Árna Friðriksson og Bjarna Sæmundsson. Siglt var til Hafnarfjarðar”, segir á vefsetri stofnuninnar.

,,Hafrannsóknastofnun, rannsókna‐ og ráðgjafarstofnun hafs og vatna er flutt í nýtt og glæsilegt hús að Fornubúðum 5, við höfnina í Hafnarfirði. Með þessu verður starfsemi Hafrannsóknastofnunar á höfuðborgarsvæðinu loks komin á einn stað. Rannsóknaskipin Árni Friðriksson og Bjarni Sæmundsson fá lægi framan við húsið við Háabakka, nýjan hafnarbakka í Hafnarfjarðarhöfn.

Í húsinu að Fornubúðum starfa um 130 manns og að auki eru um 40 manns í áhöfnum skipanna. Þá sinna margir háskólanemar námsverkefnum sínum í húsinu. Hafrannsóknastofnun rekur einnig Sjávarútvegsskóla Þróunarsamvinnumiðstöðvar UNESCO sem er hluti af GRÓ ‐ Þekkingarmiðstöð þróunarsamvinnu, sem er einn vettvangur þróunarstarfs utanríkisráðuneytisins.

Húsið er stærsta timburhús landsins reist af Fornubúðum ehf. Timbur var sérstaklega valið sem byggingarefni til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, bæði á byggingartíma og í rekstri hússins í samræmi við markmið Hafrannsóknastofnunar sem umhverfisvænnar stofnunar.

Á sjómannadaginn 7. júní milli kl. 13 og 17 býður Hafrannsóknastofnun öllum að skoða húsið. Stutt kynning verður á starfseminni og veitingar í boði.” Þetta kemur fram á vefsetri Hafrannsóknarstofnuninnar.

Það má með sanni segja að koma stofnuninnar verði mikil lyftistöng fyrir Hafnarfjarðarbæ en bærinn er rótgróinn útgerðarbær sem á sér sögu frá upphafi landnáms, enda er Hafnarfjarðar getið í Landnámu fyrir góð hafnarskilyrði.

Hér má sjá svart á gráu nýja heimahöfn rannsóknarskipsins Árni Friðriksson

Höfnin hefur byggst upp í fjórum stórum áföngum:
Norðurhöfnin á árunum 1913 til um 1980.
Fyrri hluti Suðurhafnarinnar og Flensborgarhöfn á árunum 1970 til 1993.
Straumsvík á árunum 1966 til 1997.
Seinni hluti Suðurhafnarinnar, Hvaleyrarhafnarsvæðið, á árunum 1996 til 2008.

Þess má geta að hafnarstarfsemi er nú aflögð á Norðurhöfninni og öll flutt í Suðurhöfnina. Þar eru vöruflutningar, aflalöndun, viðgerðir og þjónusta. Í höfninni eru meðal annars flotkvíar, frystiklefar, þurrgeymslur, bátasmíði, veiðarfæragerð ásamt annarri fjölbreyttri þjónustu við útgerðir, skip og báta og nú síðast koma Hafrannsóknarstofnuninnar.

Mynd: Bjarni Sæmundsson, af vef Hafrannsóknarstofnuninnar.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR