Segjast ekki ætla að sætta sig við að Íran og Sádí-Arabía geri Danmörku að vígvelli

Utanríkisráðherra Danmerkur segir að Danir muni ekki sætta sig við það að staðgengilsstríð eigi sér stað á danskri grund. Tilefnið eru nýjustu fréttir um að íranska klerkastjórnin hafi ætlað að ráða leiðtoga útlagasamtaka í Danmörku af dögum. Írönsku útlagasamtökin eru staðsett i Danmörku og eru sökuð um að hafa framið hryðjuverk gegn klerkastjórninni í Íran. 

Til stendur að kalla sendiherra Íran á teppið í utanríkisráðuneytinu en einnig mun sendiherra Sádí-Arabíu verða kallaður fyrir en þeir hafa verið uppvísir að samskonar aðgerðum í Danmörku.

„Við höfum brugðist ákveðið og harkalega við,“ segir utanríkisráðherra Danmerkur, Jeppe Kofod.

Spurður um hvort búast megi við að sendiherrunum verði vísað úr landi segir hann:

„Það er mikilvægt að ríkisstjórnin  komi Sádí-Aröbum og Írönum í skilning um að við líðum það ekki að þeir heyi staðgengilsstríð á danskri grund, og það er því mikilvægt að málið verði tekið föstum tökum strax. Við höfum tekið mjög alvarlegt diplómatískt skref.“

Lars Løkke Rasmussen var forsætisráðherra þegar Danmörku var nánast lokað, í september 2018, meðan leitað var útsendara íranskra stjórnvalda sem munu hafa verið á leiðinni frá Svíþjóð til að drepa íranska útlaga og var Stórabeltis brúnni lokað um tíma á meðan á aðgerðum stóð.

Rasmussen sagði að sér fyndist viðbrögð ríkisstjórnarinnar nú alls ekki vera of harkaleg heldur alveg í samræmi við tilefnið.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR