Hæstaréttarlögmaðurinn Jón Magnússon segist hafa heimildir fyrir því að þriðja stærsta lögmannsstofa landsins sé með 31 lögmann og starfsmenn sem hafi aðallega það hlutverk að tefja fyrir brottvísun ólöglegra innflytjenda frá landinu. Þetta segir Jón á fésbókarsíðu sinni. Hann segir jafnframt að sama heimild hermi að stofan sé rekin af Rauða Krossinum á kostnað skattgreiðenda.
Ummælin féllu á sama tíma og mál egypsku fjölskyldunnar var í hámæli. Ekki fylgir sögunni hvaða lögmannsstofu er átt við en mætti ráða af ummælunum að átt sé við Rauða Krossinn sjálfan vegna umsvifa hans á þessu sviði.