Ágúst Ólafur Ágústsson, þingmaður Samfylkingarinnar, birti grein á Vísi þar sem hann lagði til að listamannalaun yrðu tífölduð. Hans hugmynd felst í því að greiða listamannalaun til tíu sinnum fleiri listamanna en nú er gert. Hann tengir þetta við kórónuveiruna og segir að með þessu verði hægt að sporna við auknu atvinnuleysi sem hlýst vegna faraldurs kórónuveirunnar.
Svo fer Ágúst í tölfræðina og segir að í ár eru það 325 listamenn af 1544 sem fá greiddar rúmar 407 þúsund krónur á mánuði í listamannalaun, flestir þrjá til tólf mánuði af árinu. Ágúst Ólafur bendir á að listamannalaun kosti hið opinbera nú um 650 milljónir króna og segir að tíföldun þeirrar upphæðar myndi kosta ríkissjóð um það bil jafn mikið og eitt prósent atvinnuleysi.
Að lokum kemur Ágúst með þennan siðferðislegan rökstuðning: „Listin og menningin er það sem gerir okkur að Íslendingum. Listafólk hefur staðið með okkur, nú á þessum erfiðum tímum, en líka alltaf áður. Nú skulum við standa með þeim, þegar á reynir. Tíföldum listamannalaunin strax.“
Það kemur ekki á óvart að Ágúst, sem er Samfylkingarmaður, skuli styðja slíkan ríkisstuðning og telja það eðlilegt að ríkið borgi fyrir vinnu fólks! Að það sé allkostar eðlilegt að fólk skuli lifa á fé sem komi frá ríkinu.
Þá vaknar spurningin hvers vegna fólk sé yfir höfuð að stunda listsköpun? Er það til þess að láta annað fólk borga fyrir listsköpunina? Eða er hún list og tjáningarfrom listamannsins? Eru laun ekki annars umbun eða aukaafurð listsköpunina? Eru listamenn ekki fullfærir um að standa á eigin fótum, án stuðnings annarra? Gildir hér ekki lögmálið framboð og eftirspurn?
Þeir sem eru færir og hafa eitthvað fram að færa, þeir fá umbun í formi tekna og lofs. Þeir eru ekki hæfir, selja auðvitað ekki neitt og því ætti almenningur að borga undir ,,tómstundargaman“ þeirra? Margir eru áhugamenn í listsköpun sinni og ættu að vera það.
Listamenn fyrri alda, sultu heilu hungri og fengu ekki lof eða aðra viðurkenningu fyrr en við dauða og sumur löngu síðar. Þeir voru knúnir áfram af tjáningarþörf sinni og létu hungur og aðra erfiðleika ekki stoppa sig. Claude Monet, Vincent Van Gogh, Johannes Vermeer, El Greco, Paul Cezanne, Georges-Pierre Seurat og Paul Gauguin eru allir brautryðjendur og listamenn sem lifa um aldur og ævi í listasögu mannkyns. Allir eiga þeir sammerkt að lifa naumt á einhverjum tímapunkti lífs sins og sumir við eymdarlíf, en ástríða þeirra kom oft í stað matar og húsaskjóls.
Ef farið er enn lengra aftur í tímann, á tímum Forn-Grikkja og Rómverja, voru listamenn ósköp venjulegir handverksmenn og þannig var það lengi vel fram eftir öldum. Þegar kom fram á endurreisnartímann, og Evrópumenn enduruppgötvuðu fornar listir, þá voru það auðugir fjársýslumenn og furstar sem borguðu fyrir unnin listaverk. Áður var það klerkastéttin sem skapaði listaverk í formi bókmennta.
Myndhöggvarinn Michelangelo var á meðal merkustu endurreisnarmanna og í Norður-Evrópu má nefna Jan van Eyck, Albrecht Dürer, Hans Holbein yngri, Hieronymus Bosch, Pieter Bruegel eldri og Pieter Bruegel yngri; allt listamenn sem áttu sér velgjörðamenn sem borguðu fyrir unnin verk.
Á 18. öld var það orðið algengt að furstar borguðu listamenn fyrir unna vinnu, Johann Sebastian Bach, Wolfgang Amadeus Mozart og Richard Wagner eru dæmi um listamenn sem sóttu um launaðar stöður hjá furstum og fengu eða fengu ekki. En málið er að þeir sóttu um launað starf, ekki styrki eða ölmusu.
Ef litið er á listamenn sem vinnandi fólk, sem þeir eru, þá ættu lögmál markaðshyggjunnar að gilda um þá eins og annað vinnandi fólk. Ef eftirspurn, þá er list þeirra keypt, stundum fyrir ofur upphæðir. Aðrir, hæfileikalega séð, ættu kannski að gera eitthvað annað eða hafa listform sitt sem áhugamál. Sagt er að ekki er hægt að meta góða list til fjár, en hérna vill Ágúst leggja lágmarkslaun á listina og blanda ríkinu í málið!