Prófskírteini fremur en flokksskírteini segir formaður borgarráðs: Gildir þetta um hana líka?

Þórdís Lóa Þórhallsdóttir formaður borgarráðs segir í viðtali við fréttir Stöðvar 2 á fimmtudaginn að hún tæki undir þá kröfu að stjórn Sorpu sé valin út frá prófskírteinum fremur en flokksskírteinum. Ummælin eru til komin vegna þess að stjórninni sást yfir 1.400 milljóna króna kostnað vegna byggingaframkvæmda á vegum Sorpu.

Borgarfulltrúinn er þekktur fyrir stóryrtar yfirlýsingar um gagnsæi og heiðarleika í stjórn borgarinnar og fyrirtækja á hennar vegum en hingað til hefur það reynst popúlismi.  Í ummælum hennar felst að sjálfsögðu vantraust á stjórn Sorpu og þá kjörnu fulltrúa sem hún og félagar hennar völdu í stjórnina. En athyglisverðast er hvort Þórdís Lóa, borgarfulltrúi Viðreisnar, sé ekki í leiðinni að lýsa frati á sjálfan sig í ljósi þeirra fjármálaspillingar sem uppvíst hefur orðið um í borginni á hennar ábyrgð. Í því samhengi ber borgarstjórn og meirihluti borgarstjórnar ábyrgð á Braggamálinu sem fór 100 milljónir fram úr áætlun og Þórdís og félagar höfðu ekki hugmynd um fyrr en þau voru upplýst um það. Það má nefna Mathöllina á Hlemmi sem kostaði borgina offjár og sem Þórdís og félagar voru voðalega hissa á þegar þau voru upplýst um það. Síðast en ekki síst má nefna þá sóun á fjármunum útsvarsgreiðenda í Reykjavík, mjög meðvituðum af hálfu Þórdísar, sem fólst í tillögu um að verja 100 milljónum í að gróðursetja eitt pálmatré á nýbyggingarsvæði. En áttu þau ekki að hafa eftirlit með þessu? Rétt eins og Þórdís fordæmir stjórn Sorpu fyrir að hafa ekki haft eftirlit með fjármálunum og kallar í raun eftir afsögn þeirra, ætti hún og félagar hennar ekki alveg eins að líta í eigin barm og segja af sér? Væri kannski betra að hugmynd Þórdísar um prófskírteini frekar en flokksskírteini ætti líka við um borgarstjórnarmeirihlutann?

Hættum að kjósa til borgarstjórnar og ráðum frekar fólk með góð prófskírteini til að stjórna borginni? Margir myndu segja að allt sé betra en núverandi borgarstjórnarmeirihluti vinstrimanna enda hafa þeir ekkert fjármálavit. Meira að segja forystumenn Eflingar gætu tekið undir það!

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR