Í Hamraborg í Kópavogi er fyrirhugað að mikil uppbygging eigi sér stað á næstu árum. Um þá uppbyggingu standa þó deilur og hafa margir íbúar á svæðinu mótmælt þeim áformum bæjarins.
Hvort lokun bensínstöðvar Olís í Hamraborg sé með tilliti til þeirrar uppbyggingar skal ósagt látið en skinna.is hefur heimildir fyrir því að gamlir kúnnar stöðvarinnar hafi reynt að fá Olís til að breyta þeirri ákvörðun með undirskriftasöfnun sem fyrirtækið hefur greinilega ekki séð sér fært að taka til greina.
Stöðin hefur verið til húsa í Hamraborginni nánast frá því að Hamraborgin var byggð en því verki lauk um 1984.
Eins og sjá má á myndinni hafa allir gluggar verið byrgðir og öllum bensíndælum sem áður fylgdi þjónusta hefur verið breytt í ÓB sjálfsala.