Nýr tónn eða falskur tónn?

Annálar frá fornu fari byrja oft á orðunum „Það bar til tíðinda…“ og fylgir þá frásögn af einhverjum nýjum tíðindum þess tíma sem hafa síðan sannað sig að hafa markað sín spor í söguna.

Það bar til tíðinda nú á dögunum að Bjarni Benediktsson sté í pontu á Alþingi og lýsti frati á kvótagreifanna. Eins og alþjóð veit sendu helstu kvótagreifar þessa lands frá sér yfirlýsingu um að þeir ætluðu að láta fólkið í landinu greiða fyrir tapaðan makríl í kvóta, að sínu áliti, en úthlutunarreglum hafi verið breytt í tíð Jóns Bjarnasonar sem þá var sjávarútvegsráðherra, í verstu ríkisstjórn Íslandssögunnar, þeirra Steingríms J. og Jóhönnu Sigurðardóttur. Jón var flæmdur úr stjórninni í kjölfarið og reyndar út af  ýmsu öðru andófi innan stjórnarinnar þegar hann reyndi hvað hann gat til að vernda íslenska alþýðu fyrir ákvörðunum þeirrar stjórnar sem marga grunar að hafi litast af spillingu og hagsmunagæslu erlends auðvalds og innlends. Það reyndi Ögmundur Jónasson líka, að vernda íslensa alþýðu, en það er önnur saga.

Jón hafði lagt til atlögu við einokunarsinnanna í sjávarútveginum og sett meðal annars rækju og skötusel utan kvóta.

Hvað er Bjarni að hugsa?

Nokkur fyrirtæki í sjávarútvegi ákváðu að krefjast bóta, vegna úthlutunar markíls í kvóta, eftir að Hæstiréttur hafði dæmt ríkið skaðabótaskylt í dómsmáli sem fyrirtækin höfðu höfðað gegn ríkinu og gekk dómur í því máli 6. desember 2018. Í nýlegum málatilbúnaði fyrir dómstólum heimtuðu forsvarsmenn þessara fyrirtækja hátt í 10 milljarða frá íslenskum heimilum í skaðabætur. Það væri of langt mál að fara yfir hvernig þessir sömu eigendur þessara sjávarútvegsfyrirtækja hafa greitt sér í arð marga milljarða í gegnum árin með því að stunda ekki bara arðrán á íslenskum almenningi, heldur líka með því að arðræna fátæk lönd í Afríku.  Sá stjórnmálaflokkur sem hefur verið hvað harðastur í að standa vörð um kvótakerfið og einokun fárra á fiskiauðlindinni er sennilega Sjálfstæðisflokkurinn. Því hlýtur yfirlýsing Bjarna Benediktssonar á Alþingi að vera stórkostleg ný pólitísk tíðindi, um að ef kvótagreifarnir héldu sínu máli til streitu gegn almenningi (ríkinu) og ynnu það fyrir dómstólum, þá myndu þeir borga sjálfir reikninginn en ekki skattgreiðendur.

Stjórnmálafræðingar hljóta að velta fyrir sér hvað þetta þýðir eiginlega? Meinar eitt helsta kamelljón íslenskra stjórnmála það sem hann segir eða er þetta falskur tónn? Hvað býr undir þegar einn helsti varðhundur kvótagreifanna hefur í hótunum við þá? Flestir muna eftir því þegar Bjarni snérist í heilan hring í Ice-save málinu og taldi skyndilega að ákvörðun verstu ríkisstjórnar Íslandssögunnar um að rétt væri að greiða Ice-save, væri einungis háð köldu mati að sinni hálfu og Ísland ætti að greiða reikninginn. Hér er verið að tala aftur um ríkisstjórn kommúnistans Steingríms J. (og Jóhönnu Sigurðardóttur, versta forsætisráðherra fyrr og síðar) sem nú situr sem forseti Alþingis í skjóli Bjarna og Sjálfstæðisflokksins.  

Hvað olli því að Bjarni skipti um skoðun þá varðandi Ice-save? Hvað var Bjarni að hugsa þá? Hvað veldur því að Bjarni fer gegn kvótagreifunum nú?

Það er skoðun ritstjórnar að fáir geri sér grein fyrir þeim stóru nýju pólitísku tíðindum sem þessi yfirlýsing Bjarna er. Kvótagreifarnir hljóta að froðufella þessa dagana. Það er hætta á ferðum fyrir þá. Sjálfstæðisflokkurinn er ekki lengur varðhundur þeirra?

Svo notuð sé myndlíking: Verða örlög Bjarna þau sömu og Kennedy’s?

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR