Guðmundur Fylkisson, aðalvarðstjóri hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, fékk í gær viðurkenningu Barnaheilla árið 2020 fyrir störf í þágu barna og ungmenna. Honum er einnig þakkað þá nálgun sem hann hefur sýnt í samskiptum sínum við börn í vanda.
Í fréttatilkynningu Barnaheilla segir að Guðmundur leggi sig fram um að nálgast ungmenni af virðingu og nærgætni til að auka ekki á vanlíðan þeirra og skaða.
„Þrátt fyrir að hann starfi fyrir lögregluna á höfuðborgarsvæðinu aðstoðar hann við leit að börnum alls staðar að af landinu. Guðmundur leggur sig fram um að varast staðalímyndir því börnin sem hann leitar að eru á ýmsum aldri og með mismunandi bakgrunn og bakland þeirra missterkt,“ segir í tilkynningu Barnaheilla.