Kristni í 1020 ár á Íslandi

Kristnitakan á Íslandi er tímabil í sögu Íslands, þegar lögfest var að allir landsmenn skyldu aðhyllast kristni í stað heiðni. Miðað við tímatal þess tíma var kristnitakan árið 1000, og vanalega er miðað við það, en samkvæmt núgildandi tímatali var hún sumarið 999.

Það hafði svifið lengi um í loftinu, að íslensku landnámsmennirnir og afkomendur þeirra myndu taka upp kristinn sið. Samtímaheimildir skortir um trúarlíf landnámsmannanna, en ritaðar heimildir skrifaðar árhundruð síðar, segja að meginþorri landsmanna á landnámsöld hafi verið heiðnir og aðhyllst ásatrú. En sumir hafi verið kristnir, sérstaklega þeir sem komu frá Bretlandseyjum og ánauðugt fólk tekið herskyldi á Írlandi og öðrum eyjum.

Þótt landnámsmennirnir væru að mestu heiðnir, höfðu þeir kynnst kristni trú og sumir látist prímsignast, svo að þeir gætu umgengist kristið fólk.  Þetta hjálpaði til við að trúskiptin yrðu átakalítil um árið 1000.  Heiðnir menn höfðu með öðrum orðum kynnst kristinni kenningu og lært að meta og umgangast kristna trú.

Um muninn á ásatrú og kristni

,,Þegar vér athugum nánar grundvallareinkenni ásatrúarinnar og kristinnar, þeirra tveggja trúarbragða, er keppa um yfirráðin á Norðurlöndum á síðari hluta víkingaraldarinnar, þá leynir sér ekki, að þau í ýmsum trúar- og siðalögmálsatriðum eru svo andstæð og ólík, sem frekast má verða. Ásatrúin er í innsta eðli sínu orustu- og vígatrú, kristin aftur á móti friðarboðskapur og bannar með öllu víg og blóðsúthellingar. Ásatrúin krefst hefnda fyrir allar mótgerðir, kristin boðar kærleika og umburðarlindi. Ásatrúin boðar persónulegt sjálfstæði, kristin boðar auðmýkt og sjálfsafneitun. Líf ásatrúarmanna stefndi að því að afla sér frægðar og fram á jörðinni, líf kristinna manna byggðist eingöngu á voninni um eilífa sælu annars heims.“

(Heimild: Jón Jónsson, Gullöld Íslendinga).

Annað atriði er að heiðnin trú átti undir högg að sækja víðs vegar um Norðurlönd.  Mikill samgangur við umheiminn á víkingaöld, þar sem víkingarnir ferðuðust alla leið til Ameríku, Rússlands og Miðausturlanda, opnuðu augu þeirra að hugmyndir þeirra væru ekki eina eina sýn á tilurðu lífs og heims. Þar sem ásatrú er fjölgyðistrú, var auðvelt að bæta Hvíta Krist í safn guðanna sem átti að tilbiðja.

Þriðja atriðið var að valdhafar í Þýskalandi og á Norðurlöndum, ákváðu að taka upp kristna trú. Sumir viljugir, aðrir nauðugir. Í grófum dráttum má segja að kristnitakan hafi verið valdboð að ofan og þeir sem voru staðfastastir í heiðninni, urðu að láta undan, því að Vestur- og Norður-Evrópa var orðin kristin að mestu.

Karlamagnus, konungur Franka og keisari frá og með 800 e.Kr. var öflugur í baráttunni fyrir útbreiðslu kristnidóms.  Saxar í Saxlandi og er í núverandi Þýskalandi voru öfugastir Germana en þeir voru heiðnir trúar. Þangað fór hann fyrst árið 772. Alls varði Karl 30 árum ævi sinnar í að hertaka lönd Saxa í nokkrum leiðöngrum. Honum var ekki aðeins umhugað um að ná löndum þeirra, heldur réðst hann í að kristna þá. Í þeim tilgangi var borgin Hamborg stofnuð og var hún lengi vel miðstöð kristniboðsins í norðri.

Frá Hamborg var kristniboðun stunduð, fyrst til Danmerkur og síðar annarra Norðurlanda. Heinrekur I. Þýskalands sigraði Dani í styrjöld árið 934 og ruddi hann kristinni braut þar í landi.

Í Noregi reyndi Ólafur Tryggvason konungur að koma á kristni með góðu eða illu á árunum frá 995-1000 og norskir höfðingjar urðu að láta undan síga að lokum. Vegna mikilla tengsla Íslendinga við Noreg, gleymdi Noregskonungur ekki Íslandi og hingað sendi hann Þangbrand, saxneskan hirðprest, til að boða fagnaðerindið. Áður hafði erkibiskupinn á Brimum (Bremen) sent hingað trúboða með litlum árangri, þar sem íslenskir höfðingjar voru ekki ginnkeyptir fyrir nýrri trú. Fáeinir létust þó prímsignast.

Þangbrandur sem kom hingað á vegum Ólafs Tryggvasonar, var hins vegar harðfengnari og kunni betur á íslenska höfðingja.  Fyrir hans tilstilli létu margir höfðingjar skírast, þar á með Hallur Þorsteinsson á Síðu, Hjalti Skeggjason úr Þjórsárdal og Gissur hinn hvíti Teitsson frá Mosfelli í Grímsnesi (seinna Skálholti) en trúskipti hins síðarnefnda átti eftir að hafa víðtækustu afleiðingar, því að ætt hann lagði Skálholt undir biskupssetur. 

Á þessum tíma var Ísland skipt upp í goðorð og því var það í valdi goða, að skipta til um trúhald fólksins í goðorðinu.  Landið hefði því getað verið eins og bútasaumur, sum goðorð verið heiðin og sum kristin eins og varð um skeið.

Höfðingjarnir Gissur hvíti Teitsson og Hjalti Skeggsson gengu svo á fund Ólaf Tryggvason og fengu stuðning hans við kristintöku Íslendinga en hann var þá með marga íslenska höfðingjasyni í gíslingu.

Fór þeir Gissur og Hjalti á þing á Þingvöllum og báru upp erindi sitt ásamt Halli á Síðu. Hallur var kosinn lögsögumaður kristinna en Þorgeir Ljósvetningagoði lögsögumaður hinna heiðnu. Með öðrum orðum hafði helmingur landsmanna sagt sig úr lögum við hinn helminginn. Til að bjarga friðinn, en það stefndi í vopnuð átök, var Þorgeir Ljósvetningagoði látinn skera úr deilumálinu.

Úrskurður hans var málamiðlun og í raun fengu menn að vera heiðnir áfram, þeir sem vildu en áttu að blóta í laumi eða kyrrþey en vera kristnir í orði a.m.k. og skírn taka. Áfram mátti bera út börn (sem var hagnýt atriði í harðbýlu landi og var þá eins konar ,,fóstureyðingar“ þess tíma). Þriðja atriði var líka hagnýt, en það var hrossakjötsát. Fjórða atriðið var mikilvægast, en það var eins og áður sagði, blóta mátti á laun.  Niðurstaða er málamiðlun og til að tryggja friðinn.

Þannig mátti tryggja samgöngur við Noreg og umheiminn sem nú var orðinn að mestu kristinn. Ekki var hægt að halda landinu heiðnu í trássi við Noregskonung og valdamikilla íslenskra höfðingja. Hvað höfðingjarnir ákváðu, það var sem skipti öllu máli, alþýðan fylgdi á eftir og hlýddi.

Raun varð líka sú, að trúskiptin gengu hægt fyrir sig og ólíkt því sem gerðist 1550 þegar Danakonungur kom á lúterskri trú með hervaldi og umskiptin gerðust á svipstundu. Hingað voru sendir erlendir prestar og trúboðar næstu áratugina en það var ekki fyrr en með komu Ísleifs Gissurarsonar hvíta Teitssonar, fyrsta íslenska biskupinn og Skálholtsbiskup, að kristnihaldi var sett föstum og formlegum skorðum.

Ísleifur fór til náms í Saxlandi „ok seldi hann til læringar abbadísi einni í borg þeiri er Herfurða (Herford) heitir. Ísleifr kom svá til Íslands at hann var prestr ok vel lærðr,” segir í Hungurvöku. Ísleifur tók svo við goðorði föður síns og bjó í Skálholti 1056 og þar með grundvöllurinn lagður að biskupsetrinu þar. Í Skálholti stofnaði Ísleifur skóla. „En er það sáu höfðingjar og góðir menn að Ísleifur var miklu nýtri en aðrir kennimenn, þeir er á þvísa landi næði, þá seldu honum margir sonu sína til læringar og létu vígja til presta,“ segir Ari fróði í Íslendingabók. Þar með varð til vísir að íslenskri prestastétt og kristinhald tryggt. 

Gleðilega páska!

Forsíðumynd: Tölvu­gerð mynd af miðalda­kirkj­unni. kirkj­an.is

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR