Kjaraviðræður í Fyrirheitna landinu

Jens G Jensson skrifar:

Í Fyrirheitna landinu höfum við upplifað síðustu tíu ár, nýstaðin upp úr efnahagslegu hruni, að samfélagslegt verkfæri, húsnæðismarkaður, hefur snúist í höndum okkar og gegn okkur. Þegar efnahagsbati byrjaði að komast í augsýn komu nýir keppinautar inn á völlinn. Fjársterk félög byrjuðu uppkaup á íbúðarhúsnæði frá opinberum sjóðum og fjármálastofnunum og vaxandi ferðamannaiðnaður keppti um leiguíbúðir við íbúana. Tregða og skortstaða á lóðum, ásamt ásetningi yfirvalda Fyrirheitna Landsins um hámörkun á lóðarverði og þéttingu byggðar, gerðu stórum hluta almennings ókleift að skaffa sér þak yfir höfuðið. Húsnæðisverð hefur tvöfaldast, langt umfram framfærsluvísitölu.

Verð á grunnþörfum er í hæsta máta hagsmunir almennings. Og það er óvéfengjanlegt að samfélag sem býður upp á grunnþarfir á sem lægstu verði, er samfélag sem er vel rekið og aðlaðandi. Hið gagnstæða er samfélag þar sem hagsmunir íbúanna eru útvistaðir til aðila sem hafa beinlínis hag af að halda háu verði á grunnþörfum. Það tók samfélag fyrirheitna landsins áratugi að byggja upp þessa innviði fyrir ört fjölgandi íbúa. Kaup og leiguverð á íbúðarhúsnæði var aðgengilegt fyrir launafólk og þeir sem leigja út íbúðarhúsnæði voru ánægðir að hafa leigjendur.

Á sama tíma og samfara átti sér stað mikil aukning í eftirspurn eftir vinnuafli. Þar var Verkalýðshreyfing sem gætti hagsmuna vinnuaflsins, sem passaði að ekki yrði umframframboð á vinnumarkaðnum. Þetta var samfélagslega hagkvæmt, atorkuskertir voru einnig gjaldgengir og sóst var eftir vinnuafli sem var komið fram yfir aldur, en með starfsgetu. Vinnuveitendur, vildu sem mest frjálsræði í innflutningi á vinnuafli fyrir sína hagsmuni, Verkalýðshreyfingin stóð á bremsunum og gætti þess, að umframframboð myndi ekki leiða til lakari kjara.

Um þessar mundir horfum við á kappræður hagsmunaaðilanna í Sjónvarpi Samfélagsins í Fyrirheitna landinu. Þar er tekist á um hækkanir á lægstu laun og sýnt fram á að hinir lægst launuðu geti ekki framfleytt sér. Helsti vinnuveitandi hinna allra lægst launuðu eru stofnanir Samfélagsins, sem er stjórnað af kjörnum fulltrúum. En málsvari þeirra er samt ekki úr þeirra röðum, heldur úr röðum þeirra sem samfélagið hefur útvistað sínum hagsmunum til. Þeirra sem ekki deila kjörum með samfélaginu né íbúum þess, heldur hafa sína lífsafkomu af hversu langt þeir geti gengið í hagnaði af Samfélaginu og íbúum þess.

Þessir fulltrúar eru reyndar arftakar af fulltrúunum sem sátu við sama borð þegar Fyrirheitna landið var mótað. En þegar lagt er við hlustir mætti halda að þeir væru aldir upp í allt öðru samfélagi. Báðir, eða reyndar allir þrír, samfélagsyfirvöld líka, þrástagast á réttmæti framfærslubærra launa. En horfa framhjá sínum eigin gerðum, sem eiga stærstan þátt í að lægstu laun eru ekki lengur framfærslubær.

Samfélag Fyrirheitna landsins hefur þróast frá að vera samfélag með ódýrum grunnþörfum og framfærslubærum launum. Þar hefur vegið þyngst raunvirði íbúðarhúsnæðis, lág eiginþáttaka í greiðslum fyrir heilbrigðis og menntaþjónustu. Ásamt vernduðum vinnumarkaði sem jók atvinnuþátttöku jafnvel hinna atorkuskertu og öldruðu. Það er búið að snúa við spilaborðinu. Spila frá sér stöðu með umframframboði á íbúðarhúsnæði, yfir í skortstöðu og okur. Spila frá sér stjórn á innfluttu vinnuafli, með kröfu um aðild að verkalýðsfélögum og vernd umsaminna kjara á vinnumarkaði. Frá skortstöðu í umframframboð af vinnuafli, með þeim afleiðingum að erfiðara er að halda uppi kaupgetu og ekkert pláss er fyrir þá með skerta starfsorku, sem eru sendir beint á framfæri samfélagsins, sem einnig er fátæktargildra.  Að horfa og hlusta, sé ég tvo sökudólga, báðir jafn meðsekir, en einn, sá jakkafataklæddi, virðist hafa öll spilin á eigin hendi.


MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR