Svo virðist vera staðan í dag, að íslenskir stjórnmálaflokkar starfi án hugmyndafræði. Að sjálfsögðu hafa allir stjórnmálaflokkar stefnuskrá á sinni könnu og ákveðna hugmyndafræði en enginn virðist fara eftir þessi á borði, aðeins í orði.
Hvers vegna er það svona í potti brotið? Tvær skýringar virðast liggja næst. Í fyrsta lagi, þegar kommúnisminn varð lagður að velli með falli Sovétríkjanna og kalda stríðnu lauk, að valmöguleikinn milli tveggja skýrra valkosta og andstæðra hugmyndafræða var þar með úr sögunni.
Þegar hugmyndafræðin og hugsjónirnar að baki henni er úr sögunni, um hvað á þá að berjast? Og hvað tekur við í staðinn? Tæknileg úrlausnarverkefni þjóðfélagsins, sem embættismenn ráðuneyta leysa í ráðuneytinum, án skýrrar sýnar um hvernig þjóðfélag við viljum búa í? Það er ekki þeirra verkefni að koma með pólitíska framtíðarsýn, það er stjórnmálamannanna og þá sérstaklega formanna flokkanna.
Þegar pólitískar línur hafa óskýrt svo, að tveir höfuð andstæðingar í pólitík, VG og Sjálfstæðisflokkurinn, geti unnið saman, þá er það saga til næsta bæjar og til mark um að hugmyndafræðin er horfin úr íslenskum stjórnmálum.
Annað hvort sópuðu þessir flokkar stefnuskrá sína undir teppi og sögðu að þetta sé bara skrautskjal (og það sé enginn ágreiningur um hver þjóðfélagið eigi að stefna) eða það vantar alvöru leiðtoga, sem þora að fara eftir stefnuskrá flokks síns, þar með þá hugmyndafræði og hugsjónir sem þar standa að baki.
Líklega fer hvoru tveggja saman, pólitískt rekald stjórnmálanna og stefnuleysi formannanna. Það þótti tíðindi þegar formaður Miðflokksins, talaði um hugmyndafræði og hugsjónir og vakti grein hans um stjórnmálaástandið í dag, ,,Sumarið 2020 og nýja menningarbyltingin“, mikla athygli.
Það er kannski í sjálfu sér rangt að nota hugtakið leiðtogi, þegar fólk er bara formenn flokka sinna en þora ekki að vera leiðtogar í orði og á borði.