Íbúar í Wuhan varaðir við hættu á nýjum faraldri

Íbúar í borginni Wuhan þar sem kórónavírusfaraldurinn átti upptök sín hafa fengið skilaboð frá stjórnvöldum um að búa sig undir nýja bylgju af smitum og verið hvattir til að herða enn frekar á sóttvörnum.

Það er nú mat leiðtoga kínverska kommúnistaflokksins í Wuhan að hættan á nýjum faraldri sé mikil.

Wang Zhongli, leiðtogi kommúnistaflokksins í borginni, segir að 11 milljónir íbúa í Wuhan þurfi að herða sig í sóttvörnum og eigi að halda sig heima en misbrestur virðist vera á því og fólk farið að sýna óvarkárni í daglegum samskiptum.

Ekki er langt síðan að stjórnvöld lýstu því yfir að þau hefðu náð stjórn á veirufaraldrinum í borginni en um tíma var borgin algjörlega einangruð frá umheiminum og algjört útgöngubann var fyrirskipað. Svo virðist nú, eftir að slakað var á klónni, að leiðtogar héraðsins séu farnir að fá bakþanka um að þeir hafi verið of fljótir á sér með yfirlýsinguna.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR