Glæpamenn vígbúast í veirufaraldrinum: Bannað gengi lætur á sér kræla

Löggæsluyfirvöld í Danmörku segja að þar í landi hafi glæpagengi ekki lagst í dvala í veirufaraldrinum heldur þvert á móti. 

Dönsk yfirvöld notfærðu sér ákvæði í stjórnarskránni og bönnuðu með lögum glæpasamtökin Loyal To Familia sem að mestu eru skipuð innflytjendum og foringi þeirra er pakistanskur innflytjandi sem vísað var úr landi. Þessi samtök hafa látið á sér kræla aftur í veirufaraldrinum og hafa verið skærur milli þeirra og annarra glæpagengja í bænum Husum. Þar hafa orðið fleiri en einn skotbardagi milli gengjanna sem blossuðu upp daginn sem samkomubann var sett á í landinu. Tveir létust í þeim skotbardaga. 

Þrátt fyrir að lögbannið sem sett var á LTF hafi reynst lögreglunni öflugt vopn í baráttunni við glæpasamtökin og lamað þau á tímabili virðist sem þau hafi náð nokkru flugi undir þeim kringumstæðum sem veirufaraldurinn og útgöngubannið skapaði. Meðlimir gengisins hafa ekki látið útgöngubann á sig fá heldur safnast saman í flokkum og haldið partý og grillveislur og þannig ögrað yfirvöldum.

Lögreglan hefur fylgst náið með og gert margar rassíur þar sem meðlimir LTF hafa haldið sig. Vopn hafa fundist í húsleitum en einnig fékk lögreglan ábendingu um að vopn væru falin í kirkjugarði á Norðurbrú í Kaupmannahöfn, til dæmis undir legsteinum og í runnum. Fann hún nokkuð að vopnum við leit í kirkjugarðinum. Dönsku glæpasamtökin hafa reynt að notfæra sér ástandið í þjóðfélaginu til að safna nýjum meðlimum meðal ungs fólks. Europol segir vísbendingar um að skipulögð glæpasamtök í Evrópu reyni á allan hátt að gera sér mat úr kórónaveirufaraldrinum og líklegast hafi mörg glæpasamtök hagnast á veirufaraldrinum. Skipulögð glæpastarfsemi hafi ekki lagst af í veirufaraldrinum heldur þvert á móti hafi hún eflst. 

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR