Í lok ágúst á þessu ári uppgötvaði lögreglan að það voru óvenju fáir úti í úthverfi Stokkhólms, Tensta.
Á sama tíma fékk hún ábendingar um að glæpamenn, klíkur á svæðinu, ógnuðu fólki með vopnum og neyddu það til að vera innandyra.
– Það var fólk frá þessum klíkum sem var úti og sagði íbúum að þeir ættu ekki að vera úti eftir klukkan 18 og það dreifðist fljótt til allra sem búa hér, segir lögreglustjórinn í Rinkeby, Therese Rosengren, við TV4.
Og ef einhver spurði hvað myndi gerast ef þeir væru ekki inni, þá var svarið skýrt.
– Þeir yrðu fyrir alvarlegu ofbeldi, segir Rosengren.
Vissu ekki af þessu
Þetta spurðist út um helgina og viðbrögðin hafa ekki látið á sér standa.
– Ég hef aldrei heyrt um þetta áður. Ég er viss um að lögreglan tekur þessar upplýsingar mjög alvarlega og passar að sænsk lög gildi í Svíþjóð og þau eiga við um alla. Það eru engir glæpamenn sem ættu að fá að ákveða hvað aðrir ættu að gera og hvað ekki, segir innanríkisráðherra Svíþjóðar, Mikael Damberg við TV4.
Samkvæmt lögreglunni eru sex mismunandi glæpagengi að störfum á þessu svæði, en það eru einkum tvö sem hafa verið í átökum undanfarna mánuði og það eru þessar tvær klíkur sem hafa fyrirskipað útgöngubann.
Uppgjör þessara tveggja klíka hefur leitt til fjögurra dauðsfalla og nokkurra morðtilrauna síðan í júlí á þessu ári.
Sýning á valdi
– Ein ástæðan fyrir þessu getur verið sú að gengin tvö ættli að gera eitthvað sem þau vildu ekki að íbúarnir á svæðinu sæju, eða þeir vildu ekki að eitthvað kæmi fyrir íbúana, segir klíkusérfræðingurinn Amir Rostami við SVT.
– Þetta getur líka verið hrein valdsýning en þá hefði þetta átt að gerast nokkrum sinnum. Eftir því sem ég best veit hefur þetta aðeins gerst einu sinni, segir Rostami sem telur að atvikið skipti máli og sýni hvaða vald klíkurnar hafa í samfélaginu.
– Þetta bendir til þess að þeir hafi náð miklum áhrifum í heimabyggð. Að þeir finni að þeir hafi tækifæri til að gera þetta og að þeim finnist þeir nógu öflugir til að komast upp með það, segir mikið.
Spennuþrungið svæði
Þetta er ekki í fyrsta skipti sem úthverfin Rinkeby og Tensta eru í sviðsljósinu vegna vandamála sem tengjast glæpagengjum skipuð innflytjendum.
Umdæmið hefur hátt hlutfall innflytjenda, mikil félagsleg vandamál og hefur verið vettvangur ofbeldisfullra óeirða. Blaðamanni NRK var árið 2017 ógnað af ungu fólki sem kastaði grjóti þegar hann hætti sér inn í hverfi þar sem einungis innflytjendur búa.
Sylvi Listhaug (Frp) var þarna til að skoða aðstæður fyrir kosningar 2017 og olli það miklum deilum því hún var sögð vera að kynda undir útlendingahatri.