Félag fanga fær styrk til að styðja við börn og ungmenni frelsissviptra

Félags- og barnamálaráðherra veitti félagi fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, þriggja milljóna króna styrk. Styrkurinn er ætlaður til að félagið geti betur stutt við börn, maka og annarra aðstandenda frelsissviptra.

Þetta segir í fréttatilkynningu frá félags- og barnamálaráðherra.

Fyrir hönd Afstöðu, félags fanga, skrifaði Guðmundur Ingi Þóroddsson undir viðtöku á styrknum. 

„Á árinu 2020 opnuðu samtökin Miðstöð endurhæfingar og málefna fanga í Holtagörðum í Reykjavík þar sem boðið er upp á fræðslu, ráðgjöf og meðferðir í samstarfi við fagfólk en stefnt er að því að byggja upp þá starfsemi enn frekar á komandi ári. Afstaða veitir stuðning og ráðgjöf til fanga og fyrrverandi fanga en markmiðið með starfseminni er að tryggja einstaklingum sem fara halloka í lífinu, vegna refsidóma og fangavistar, úrræði og þjónustu til að styrkja félagslega stöðu þeirra. Félagið veitir einnig stuðning og ráðgjöf til aðstandenda fanga og sinnir erindum og fyrirspurnum sem lúta að málefnum fanga og fleira,“ segir í tilkynningu á vef ráðuneytisins.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR