Skúli Magnússon (12. desember 1711 – 9. nóvember 1794), oft kallaður Skúli fógeti, var landfógeti Íslands og einn helsti drifkrafturinn á bak við stofnun Innréttinganna – fyrsta hlutafélag Íslendinga. Skúli hefur stundum verið nefndur faðir Reykjavíkur. Hann var einn helsti boðberi upplýsingarinnar á Íslandi.
Sem landfógeti hóf hann þegar að berjast fyrir ýmsum framfaramálum og helst fyrir stofnun framfarafélags sem skyldi standa að ýmsum umbótum í landbúnaðarmálum og iðnaði. Hann vildi líka að Íslendingar eignuðust þilskip svo þeir gætu sótt á djúpmið. Félagið Innréttingarnar var stofnað af Skúla ásamt íslenskum embættismönnum á Þingvöllum 17. júlí 1751 til að vinna að viðreisn íslenskra landshaga. Innréttingunum var valinn staður í Reykjavík og meðal annars þess vegna hefur Skúli oft verið kallaður faðir Reykjavíkur.
Heimild: https://is.wikipedia.org/wiki/Sk%C3%BAli_Magn%C3%BAsson