Margir kópavogsbúar munu eflaust verða fyrir vonbrigðum því þetta árið hefur Kópavogsbær ákveðið í samvinnu við íþróttafélagið Breiðablik að engin brenna verði í Kópavogsdal. Þetta kemur fram í tilkynningu á heimasíðu Kópavogsbæjar.
„Engin brenna verður í Kópavogsdal á gamlárskvöld. Brennan var síðast haldin árið 2019 en féll niður 2020 og 2021 vegna samkomutakmarkana. Brennan hefur verið samstarfsverkefni Breiðabliks og Kópavogsbæjar. Kópavogsbær hefur tekið þátt í undirbúningi, sótt efni í brennuna, hlaðið hana og vaktað fram að gamlársdegi en Breiðablik séð um brennuna og viðburðarhald um kvöldið.
Kópavogsdalur er ekki lengur talinn heppilegur staður fyrir áramótabrennu. Annars vegar vegna umhverfissjónarmiða, þar sem mikil mengun hefur mælst í Kópavogsdalnum á gamlárskvöld og hins vegar vegna öryggissjónarmiða og nálægðar við mannvirki í grennd við brennustæðið.
Ásdís Kristjánsdóttir bæjarstjóri Kópavogs
Ásgeir Baldurs formaður Breiðabliks„