Breski Verkamannaflokkurinn: Nýr leiðtogi fundinn

Lögfræðingurinn Keir Starmer er hinn nýji leiðtogi breska Verkamannaflokksins og mun taka við af Jeremy Corbyn sem leiddi herfilegan ósigur flokksins í síðustu þingkosningum þar í landi.

Þetta var tilkynnt á netinu í dag. Flokkurinn hefur ekki getað haldið flokksþing vegna kórónuveirufaraldursins. Hinn nýji leiðtogi birti ávarp til flokksfélaga á netinu og sagði það bæði vera heiður og forréttindi að hafa verið valin í leiðtogasætið. Hann sagðist líka vonast til að Verkamannaflokkurinn myndi skjótt taka við stjórnartaumunum.

Fréttaskýrendur í Bretlandi telja að Starmer muni reyna að leika stórt hlutverk þegar Brexit farsinn kemst aftur á dagskrá í landinu en Brexit hefur alveg fallið í skuggann á kórónuveirufaraldrinum. Einnig er talið að Starmer muni reyna að leiða Verkamannaflokkinn aftur meira inn á miðjuna öfugt við Corbyn sem þykir hafa leitt flokkinn of mikið til vinstri í sinni formannstíð.

Angela Rayner sem hingað til hefur verið talsmaður flokksins í menntamálum í svo kölluðu skuggaráðuneyti er tilnefnd til varaformanns.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR