Boða til ráðstefnu um betra samfélag í skugga kröfu láglaunakvenna um hærri laun: Er þetta ekki bara grín?

Píratar auglýsa nú af krafti ráðstefnu sem þeir boða til í Ráðhúsinu í Reykjavík 23. febrúar og ber yfirskriftina „Betra samfélag fyrir alla!“ Í auglýsingunni má sjá slagorð eins og „Tölum saman,“ sem hljómar einkennilega í ljósi þess að Reykjavíkurborg hefur ekki getað átt samtal við Eflingu, síðustu daga, vegna kjaramála starfsfólks leikskóla borgarinnar þar sem konur eru í miklum meirihluta. Formaður Eflingar hefur lýst meirihlutaflokkunnum í borgarstjórn sem kvennfjandsamlegum og að þeir væru að níðast á leikskólakennurum. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri, þá væntanlega borgarstjóri sumra borgarbúa, en ekki allra miðað við yfirlýsingu formanns Eflingar, hefur verið í felum fyrir fjölmiðlum og ekki að undra að stóru fjölmiðlarnir hafi látið hann í friði eins og RÚV, miðað við ítök þeirra flokka, sem mynda meirihlutann í borginni, í þessum fjölmiðlum.

Þessir sömu flokkar, með Pírata í fararbroddi, gáfu lítið fyrir undirskriftasöfnun til stuðnings því að flugvöllurinn yrði til framtíðar þar sem hann er í Vatnsmýrinni. Sjötíuþúsund manns skrifuðu undir!

Sú undirskriftasöfnun var afgreidd sem ómarktæk. Af hverju? „Af því bara,“ var svarið. „Tölum saman.“(?) 

Nú auglýsa Píratar fyrir þessa ráðstefnu sína um Betra samfélag fyrir alla, líka með slagorðinu „ÞÍN RÖDD SKIPTIR MÁLI.“

Í kynningu Pírata fyrir þessa ráðstefnu segir að 30 félagasamtök muni taka þátt í henni. Það kemur hinsvegar ekki fram hvaða félagasamtök það eru. Mætti giska á það að samtök leikskólakennarra  verði ekki þar á meðal? Eða verkalýðsfélagið Efling? Nú eða samtök kaupmanna í miðborginni?

Nei, sennilega ekki. „En þín rödd skiptir máli!“(?)

En mætti giska á að þangað hafi verið boðið hinum ýmsu félagasamtökum sem telja sig sjálfskipaða rödd innflytjenda og hælisleitenda? Sem væri auðvitað þversögn því íslensku leikskólarnir eru mikið mannaðir af konum sem eru af erlendum uppruna og formaður Eflingar segir að borgarstjórnarmeirihlutinn sé að níðast á. Og eru Píratar þar fremstir meðal jafningja eins og í sögu Georgs Orwells, Félagi Napóleon, þar sem sumir eru jafnari en aðrir að sögn svínanna (og eru þau tákn fasismans að mati margra) sem tóku völdin af hinum dýrunum í þeirri ágætu sögu. Kannski hefur orðið misritun í slagorðum Pírata fyrir þessa samkomu í Ráðhúsinu? Eða að sum orð eru rituð með ósýnilegu bleki? Kannski eiga slagorðin að vera á þennan veg: Betra samfélag fyrir suma!“ og “Þín rödd skiptir EKKI máli!“

Kannski er þetta trikk hjá Pírötum? Eins og hjá atvinnurekandanum sem auglýsti eftir starfskrafti í verslun sína á því ári þegar jafnréttislög voru fyrst innleidd á Íslandi. Í þeim lögum var bannað að auglýsa sérstaklega eftir bara öðru kyninu.

Honum eða henni vantaði ritara og á þessum árum voru þeir yfirleitt kvenkyns. Auglýsingin hljóðaði svona:

Óskum eftir ritara til starfa. Umsækjendur skili inn umsókn í skilahólf dagblaðsins (þar sem auglýsingin birtist). Konur skili inn umslagi með umsókn merkt „ritari“ en karlmenn skili inn umsókn merkt „Ha,ha,ha,ha!“

Ef til vill ættu Píratar, Samfylking, Vinstri grænir og Viðreisn að vera heiðarleg fyrir næstu borgarstjórnarkosningar og mynda kosningabandalag og nota kosningaslagorðið „Betra samfélag fyrir alla! Ha,ha,ha!“

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR