Bjarni á útleið úr ríkisstjórn og pólitík? – Verða eftirmæli um hann blettur á sögu Sjálfstæðisflokksins?

Ritstjórnin skrifar: Stjórnmálin á Íslandi eiga eftir að skjálfa næstu daga. Það er að minnsta kosti skoðun ritstjórnar.  Bjarni Benediktsson formaður Sjálfstæðisflokksins hlýtur að falla með algjörlega ábyrgðarlausri framkomu sinni í gær og lýst er í skýrslu lögreglu af afskiptum að fjölmennri drykkjusamkomu. Það að hafa mætt í samkomuna, þrátt fyrir kóvid, lýsir hroka sem vart á sér líkan í íslenskri pólitík nema ef borið væri saman við Steingrím J. Sigfússon sem sveik þjóðina á ögurstundu eftir hrunið.

Margt málið hefur komið upp í kringum Bjarna Benediktsson en honum ætið tekist að snúa sig út úr þeim enda ekki kallaður „teflonmaðurinn“ fyrir ekki neitt. Undir stjórn hans hefur Sjálfstæðisflokkurinn hrunið í fylgi og má búast við að flokkurinn verði í framtíðinni sviplaus 20% flokkur hægra megin við miðju. Hann leiddi kommúnista til valda og í skjóli hans situr forseti Alþingis sem stuðlaði að fátækt þúsunda fjölskyldna á Íslandi þegar hann var í forystu ríkisstjórnar sem hefur hlotið eftirmælin „helferðarstjórnin“ og gaf erlendum hrægammasjóðum íslenska banka.

Það að fjármálaráðherra Íslands og formaður Sjálfstæðisflokksins skuli hafa sýnt jafn mikinn dómgreindarbrest og hroka er með ólíkindum. 

En sýnir ef til vill best að hér á landi hefur orðið til stétt hvítflibba sem telur sig yfir alþýðu landsins hafin hvað varðar lög og rétt. Þessi stétt telur sig, líkt og Eva Joly sagði um hvítflibbastéttina í Evrópu, að hún teldi sig „refsilausa“.

Bjarni hlýtur að vera á útleið úr pólitík og sem formaður Sjálfstæðisflokksins?

En hvort það breyti einhverju fyrir flokkinn er annað mál. Bjarni hefur skipað þar í helstu stöður undirsáta og ritstjórnin hefur oft líkt við forystu kommúnistaflokksins í Kína eftir Maó og kölluð var „fjórmenningarklíkan“ en hrakin var frá völdum á endanum. Spurningin er hvort fjórmenningarklíkan í Sjálfstæðisflokknum sé komin á endastöð?

En þar komum við að kjarna málsins. Sjálfstæðisflokkurinn er auðn eftir valdatíð Bjarna. Hann mun líklega stjórna þar áfram þrátt fyrir að hrökklast frá völdum komi til þess vegna þessa máls. Kim Il Sung einræðisherra Norður-Kóreu  stjórnaði landinu og kommúnistaflokki landsins áfram í töluverðan tíma eftir dauða sinn. Ritstjórninni þykir líklegt að það sama verði uppi á teningnum í Sjálfstæðisflokknum eftir tíma Bjarna á formannsstóli.

Þegar fram líða stundir hefur ritstjórnin trú á því að eftirmæli Bjarna verði blettur á sögu Sjálfstæðisflokksins.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR