Bessastaðir aflokaðir almenningi?

Athygli hefur vakið nýlega uppsett eftirlitsmyndavélakerfi og bannskilti við veginn sem liggur að bústað forseta Íslands. Einnig að hlið að kirkjunni og aðalbyggingu Bessastaða var lokað.

Engar tilkynningar hafa borist frá forsetaembættinu um að almenningi sé hér með meinaður aðgangur að Seylunni og útivistasvæðis þar sem inniheldur frábært fuglalíf og gönguleiðir. Þarna eru ennþá uppistandandi fornleifar, af Skanzinum svo nefnda og kirkjugarði sem eru hvoru tveggja í mikilli niðurníðslu.

Föst lögregluvakt er nú á Bessastöðum og lögreglubifreið var staðsett við kirkjuna er blaðamanni Skinnu bar að garði, en áður fyrr var lögreglan í Hafnarfirði kölluð til ef eitthvað bar úrskeiðis. Einn viðmælandi Skinnu sagðist hafa farið eftir þessum einkavegi fótgangandi og verið stuggaður í burtu af lögreglumanni staðarins nú í sumar.

Hvernig ber að skilja bannmerkið? Má almenningur ekki keyra ökutæki í átt að og framhjá byggingum Bessastaða? Eða er almenningur einnig óvelkominn, hvort sem er á fæti eða á hjólreiðatækjum? Mjög vinsælt er hjá hjólreiðafólki að hjóla heimreiðina að Bessastöðum og eftir Álftanesinu öllum. Athygli vakti að enginn hjólreiðamaður hætti sér eftir einkaveginum þegar staldrað var þarna við, heldur snéru þeir sér allir við, við lokaða hliðið.

Á skiltinu stendur: ,,Einkavegur. Óviðkomandi akstur bannaður.” Skiltið er bæði á íslensku og ensku.
Svo er bannmerki fyrir neðan sem bannar umferð eftir veginum.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR