Hvað hefur Ísland grætt á sambandi sínu við ESB í gegnum EES samninginn? Miklar umræður urðu um það á sínum tíma og tugir þúsunda Íslendinga skrifuðu undir bænaskjal til Vigdísar Finnbogadóttur sem þá var forseti um að EES samningurinn yrði settur í þjóðaratkvæði. Því miður þorði hún ekki að standa með þjóðinni á þeim tímamótum en stóð frekar með stjórnmálamönnum – frekar en þeim sem kusu hana í embættið – þjóðinni. Skopmyndin, birtist á þeim tíma þegar EFTA ríkin voru að gæla við að ganga í ESB, sýnir í hnotskurn áhyggjur teiknarans af því hvað myndi gerast ef við færum að tengjast ESB, sem þá hét EBE (Efnahagsbandalag Evrópu), of nánum böndum. Og það gerðist. Íslenskur iðnaður datt úr hreiðrinu, hefur átt undir högg að sækja æ, síðan. Hér áður voru framleidd húsgögn á Íslandi, skór, skip og fleira mætti telja. Þetta skapaði allt vinnu og sú vinna er horfin vegna niðurgreiddrar innfluttrar vöru frá ESB. Eftir nýjustu fréttir í landbúnaðarmálum þar sem búið er að leyfa óheftan innflutning á ferskum niðurgreiddum kjötvörum frá ESB mætti ímynda sér, ef þetta væri teiknað í dag, að það væri lamb eða belja að falla úr hreiðrinu og á þeim stæði „íslenskur landbúnaður“ í stað „íslenskur iðnaður“?
Engin texti fylgir skopteikningu Sigmund á þessari mynd enda talar hún fyrir sig sjálf. Hún birtist í mbl. 1980.