Jens G. Jensson skrifar: Skæður faraldur gengur yfir heimsbyggðina, sem dregur fram nýjar nálganir í framferði einstakra þjóða í vernd sinna borgara og sinna hagkerfa. Þessi vernd, felst að mestu leyti í takmörkunum á ferðafrelsi og samveru, sem á sama tíma er ein megin undirstaða alheimshagkerfanna. Á síðustu áratugum hafa margar þjóðir byggt sín hagkerfi á stöðugum fólksflutningum, ferðamennsku og þjónustu við einmitt hegðunarmunstrið sem nú takmarkast með valdi. Þessar takmarkanir hafa ekki bara áhrif á þá sem fá takmarkað sitt ferða og hegðunarmunstur, heldur skella takmarkanirnar af fullum þunga á þeim gríðarlega fjölda sem hefur sitt lifibrauð af að þjónusta þetta. Það eru ekki einungis fyrirtækin í þjónustugeiranum sem liggja í valnum, heldur líka bankar og fjárfestar, sem hafa lagt sitt traust á viðvaranleika þessarar atvinnugreinar, sem er líklega ein stærsta í heimi þegar veiran kom til sögunnar.
Hvað varðar landið okkar Ísland, hefur þessi áherslubreyting í aukningu þjóðartekna, af ferðamannaþjónustu sett öflugt mark á fjármunamyndun landsmanna. Þetta hefur gengið hratt fyrir sig, má segja á innan við einum áratug. En það er ekki nema rúmur áratugur síðan önnur kreppa, fjármálakreppa sýndi greinilega hvað þessi atvinnugrein er fallvölt. Þessi tegund af einkaneyslu, er það fyrsta sem hverfur þegar þrengir að. Veiran mun ganga yfir og samfélögin munu færast í samt lag aftur, en það mun taka tíma. það er engin trygging fyrir að sú aðlögun muni færa okkur og alheiminn nákvæmlega í sömu stöðu og fyrir veiru. Þvert á móti er rík ástæða til að ætla að hegðunarmunstur verði frábrugðnara eftir veiru en fyrir, allavega í nánustu framtíð.
Það er ekki hlutverk samfélags að bjarga fyrirtækjum né eigendum þeirra á annan hátt en launþegum þeirra.
Þegar svona hörmungar dynja á, er það hlutverk samfélaga að reyna að bregðast við vandanum. Þau viðbrögð eiga fyrst og fremst að varða líf og heilsu fólks, og þeirra viðurværi. Við takmörkun á athafnafrelsi takmarkast tekjumöguleikar fjölskyldna og viðurværi verður að tryggja. Það er ekki hlutverk samfélags að bjarga fyrirtækjum né eigendum þeirra á annan hátt en launþegum þeirra. Það á að skilja á milli fyrirtækja og reksturs og sjá til hvernig aðstæður þróast áður en farið er í að endurskipuleggja viðreisn. Það veit enginn í dag hvað verður ofaná og hversu langan tíma tekur að ná aftur upp þeirri veltu sem horfið var frá af völdum veirunnar. Jafnvel aldrei.
Það er ekkert launungarmál að ferðaþjónusta á Íslandi er byggð upp sem bóla. Þar hefur þensla ráðið för en styrkur vöxtur gefið eftir. Þensla sem hefur verið drifin áfram með innfluttu vinnuafli og að miklu leyti á kostnað hefðbundinna atvinnugreina og verðmætasköpunar. Þensla sem hefur haft gífurleg neikvæð áhrif á kjör þeirra sem minnst mega sín, sérstaklega í erfiðri samkeppni um íbúðarhúsnæði og verðbólgu á neysluvörumarkaði. Fjárfestar hafa farið offari og eru nú bankar illa vafðir í vonlausa stöðu. En það eru hinir sterku sem leggja til höggs og það er stór munur, hinir sterku eiga sér málsvara og sækja nú stuðnings samfélagsins, þ.e. hinna sem minna mega sín. Ef stjórnvöld á Íslandi láta leiða sig út í að nota sameiginlega sjóði skattgreiðenda, til að létta byrðarnar á forsendum fyrirtækja, sem eiga undir högg að sækja, eru þau sömu stjórnvöld á villigötum. Það eru stjórnvöld, sem eru tilbúin að kasta góðum peningum á eftir slæmum, eingöngu byggt á góðri trú. Það er engin ástæða til að rétta eigendum fyrirtækja fjármuni samfélagsins, umfram að styðja þá eins og aðra borgara ef þá skortir lífsnauðsynjar. Það á að fjármagna framfærslu og heilsu fólksins í landinu úr sameiginlegum sjóðum. Atvinnulífið verður að fá að hafa sinn gang eftir lögmálum umhverfisins, það er engin trygging fyrir því að það verði stór eftirspurn eftir böðum í Bláa lóninu eða ferðum með flugrútunni í nánustu framtíð.