„Ég er þarna eini Íslendingurinn, eini Íslendingurinn sem Kínverjum finnst þess virði að hrækja á. Ég er auðvitað stoltur af því.“ Þetta segir Jónas Haraldsson sem hefur verið settur á svartan lista hjá kínverskum stjórnvöldum vegna skrifa sinna um umgengni Kínverja við sitt fyrrum sendiráð hér á landi. Óhætt er að segja að lengi vel (þar til þeir loksins seldu húsið) var sú umgengni í stíl við orðstír Kínverja á alþjóðlegum vettvangi: Umhverfissóðar og mannréttindabrjótar.
Vegna skrifa sinna í Morgunblaðið þar sem Jónas reyndi að vekja íslensk stjórnvöld til vitundar á því hvernig fyrrum sendiráðið var látið grotna niður í mörg ár öðrum íbúum til mikils ama, hefur íslenska utanríkisráðuneytinu verið tilkynnt að Jónas sé nú komin á svartan lista hjá kommúnistastjórninni í Kína.
Íslenskir ráðamenn hafa verið mjög bláeygðir gagnvart alræðisstjórninni í Kína og leyft þeim að valsa hér um landið á vafasömum forsendum. Þar má nefna norðurslóðarannsóknir og stofnunar Konfúsíusar sem úthýst hefur verið úr mörgum nágrannalöndum vegna njósna og áróðurs. Þessi stofnun hefur átt skjól hjá Háskóla Íslands síðan 2008 og sennilega vegna fjárgjafar til Háskólans. Ekki hafa allir háskólar á Norðurlöndum verið jafn blindir á þá áróðursstarfsemi sem þessi stofnun sem kennd er við Konfúsíus rekur í löndum Evrópu. Árið 2015 lokaði Stokkhólmsháskóli þessari áróðursstofnun kínverska kommúnistaflokksins í Svíþjóð. Þessari stofnun var líka hafnað af háskólunum í Ósló og Kaupmannahöfn. En hér heima hefur hún verið rekinn síðan 2008 í Háskóla Íslands eins og áður segir.
Stjórnmálunum þykir rétt að rifja upp að í desember 2011 birti mbl.is grein sem sagði frá umfjöllun kanadíska dagblaðsins Globe and Mail um áhuga kínverska hersins á Íslandi. Yfirskrift fréttar mbls.is var „Telja kínverska herinn horfa til Íslands.“ Ríkissjónvarpið (RÚV) átti viðtal við Össur Skarphéðinsson, sem þá var utanríkisráðherra, um þessa umfjöllun Globe and Mail og spurði hann álits á henni. Össur taldi hana fráleita og lítt marktæka. Það var kannski ekki að undra enda hafa verið færð rök fyrir því að Kínverjar hafi átt ítök í Samfylkingunni á þeim tíma og eigi jafnvel í dag?
Vakin er athygli á að tenging gæti verið á áhuga kínversks auðmanns, Huang Nubo, sem hafði áhuga á að kaupa stóra sneið af Íslandi með því að kaupa jörðina Grímstaði á Fjöllum og áhuga kínverska hersins.
Þeir sem töluðu helst fyrir því að rétt væri að selja Nubo jörðina var aðallega áhrifa fólk úr Samfylkingunni.
Kínverjar hafa reynt að kaupa sig til áhrifa í öllum heimsálfum. Þeim hefur orðið ágætlega ágengt í Afríku en fréttir af framferði þeirra þar eru ekki góðar. Fréttir eru um yfirgang Kínverja og ofbeldi gegn svörtum verkamönnum sem vinna í fyrirtækjum sem Kínverjar hafa fengið að stofna með loforði um frekari fjárfestingar.
Miðað við hvernig Kínverjar haga sér gagnvart nágrannaríkjum þar sem þeir hafa eignað sér strendur og fiskimið sem þeir eiga engan rétt á þá ættu Íslendingar að hafa allan varann á þegar kemur að samskiptum við kommúnistastjórnina í Peking sem er þjökuð af hungri eftir auðlindum annarra.
Við skulum ekki gleyma því að það var ríkisstjórn sósíalistans Jóhönnu Sigurðardóttur sem staðfesti „fríverslunarsamning“ Íslands við Kína. Reyndar hefur lítið komið út úr þeim samning sem hönd er á festandi.
Stjórnmálunum þykir líklegt að sá samningur hafi ekki verið neitt annað en tilraun kínverskra kommúnista til að fá íslenskan almenning til að líka við sig.
Jóhanna Sigurðardóttir fór í boði Kínverja til Kína í apríl 2013. Það er lýsandi fyrir þau nánu tengsl sem virðast vera á milli Samfylkingarinnar og kínversku kommúnistastjórnarinnar að í þeirri ferð lýsti Jóhanna skömm á eigin kynhneigð með því að neita að hitta foreldra samkynhneigðra barna í Kína. Líklega af hræðslu við -eða jafnvel að boði kínverskra stjórnvalda.
Stjórnmálin telja að allir Íslendingar eigi að taka Jónas, sem nú hefur verið settur á bannlista kommúnistana í Peking, sér til fyrirmyndar og gera allt það sem hægt er til að komast á svartan lista kínversku kommúnistastjórnarinnar, umhverfissóðanna og mannréttindabrjótanna.
Einu sinni mótmælti hópur vinstrimanna fyrir utan gamla sendiráð Kína gegn hernámi og manréttindabrotum Kínverja í Tíbet. Kínverjar brugðust illa við. Kannski er það þess vegna sem þeir ákváðu að flytja sig um set og láta hið gamla hús sendiráðsins grotna niður og refsa nágrönnum sínum til viðvörunnar öðrum Íslendingum?
Síðan hefur lítið verið mótmælt af vinstrimönnum fyrir utan sendiráð Kína.
Er ekki komin aftur tími til að mótmæla fyrir utan hið nýja sendiráð kínverskra kommúnista á Íslandi og hið stærsta í Evrópu? Eru ekki fleiri Íslendingar sem yrðu stoltir af því að verða settir á svartan lista umhverfissóðanna og mannréttindabrjótanna í Peking?
Rétt er að loka þessari umfjöllun stjórnmálanna á orðum Kennedy fyrrum Bandaríkjaforseta og Bjarkar hinnar íslensku söngkonu þegar hún var í tónleikaferð í Kína og kallaði „Tíbet, Tíbet.“ Bara það að hún kallaði nafn þessa lita ríkis sem hernumið var í tíð Maó varð til þess að margir Kínverjar sem staddir voru á tónleikunum flúðu út í ofboði af hræðslu við hin forhertu kínversku kommúnísku stjórnvöld.
Svo má breyta hinum frægu orðum Kennedys þegar hann sagði „Ich bin ein Berliner,“ í „Ich bin ein Tibeter.“
Hvernig væri það? Að hægri menn tækju við keflinu og boðuðu til mótmæla fyrir framan sendiráð Kínverja og hrópuðu, Tíbet, Tíbet og Ich bin ein Tibeter. Hvernig væri það?
Þorir einhver?