Sómalskur maður hefur, af dómstól í Danmörku, verið dæmdur til brottvísunar úr landinu og eins árs óskilorðsbundinnar fangelsisvistar fyrir að senda 16 ára son sinn og dóttur í endurmenntunarferð til heimalands síns.
Þannig setti hann þroska þeirra og heilsu í verulega hættu, samkvæmt dómstólnum í Lyngby.
Móðirin var dæmd í hálfs árs fangelsi fyrir aðild sína að málinu.
Dómstóllinn lagði áherslu á skýringar dótturinnar sem stangaðist á við túlkun foreldra og bróður. Hún hefur í kjölfarið verið fjarlægð með valdi af Gentofte sveitarfélaginu. Þetta er annar dómurinn í máli af þessu tagi þar sem litið er á endurmenntunarferðir barna frá múslímskum fjölskyldum, sem glæp. Endurmennturnarferðir eru ferðir sem múslimskir foreldrar senda börn sín í, oftast til heimalandsins, vegna þess að þeim finnst börnin vera orðin of vestræn í hugsun og háttum eða farin að samlagast þjóðfélaginu um of. Börn sem hafa verið í þessum endurmenntunarbúðum hafa lýst þeim sem hálfgerðum fangabúðum þar sem þau hafa sætt heilaþvotti af hálfu íslamskra klerka og sætt barsmíðum og jafnvel verið hlekkjuð saman. Sendiráð Danmerkur hefur í gegnum árin hjálpað mörgum börnum aftur heim til Danmerkur eftir að þeim hefur tekist að strjúka úr endurmenntunarbúðunum og náð að komast í sendiráð Danmerkur í því arabalandi sem þau eru stödd í. Danska ríkisútvarpið greinir frá.