Fjölmiðlar á Norðurlöndum birta nú myndir af fyrstu kælibílunum sem eru að renna í hlað fullir af bóluefni við kórónaveirunni.
Í morgun voru birtar myndir af kælibíl sem affermdi bóluefni og tekið var við Ullevål sjúkrahúsið í Oslo. Fyrir utan var pressan mætt til að mynda viðburðinn sem Norðmenn tala um að sé fyrsta skrefið út úr kórónamartröðinni.
10 þúsund skammtar voru í þessari fyrstu sendingu og verður byrjað að bólusetja fólk í Oslo, Ringsaker, Hamar, Stange, Sarpsborg, Fredrikstad og Hvaler.
Bóluefni barst einnig til Svíþjóðar í morgun og ætla þeir að byrja að bólusetja 4.900 manns. Svíar reikna með að allt að 80.000 skammtar berist þeim í vikunni.
Danir fengu líka bóluefni í morgun og kom kælibíll í lögreglufylgd með bóluefnið. Heilbrigðisyfirvöld fögnuðu komu bóluefnis til Danmerkur og sögðu að nú sæi ljós fyrir enda gangnanna. Danir fengu 9.750 skammta. Líkt og Noregur og Svíþjóð fengu Danir bóluefnið frá Pfzers í Belgíu. Danir búast við að fyrstu bólusetningarnar fari fram snemma í fyrramálið.