Borgaryfirvöld í Árósum í Danmörku hafa ákveðið að hrinda af stað upplýsingaherferð í samfélagi fólks frá Sómalíu vegna þess að helmingur nýrra smita Kínaveirunnar hefur greinst meðal þeirra. Í vikunni hafa verið skráð 104 ný tilfelli í borginni. Yfir helmingur þeirra er meðal Sómala í borginni.
Unnið er að því að rekja uppruna smitanna. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem óvenju mikið af nýsmiti greinist meðal fólks sem á sér annann uppruna en danskan.
Í júlí greindust 247 nýsmit og voru 59 prósent þeirra meðal innflytjenda.
Heilbrigðisyfirvöld segjast ekki hafa skýringar á hver orsökin er á því að svo hátt hlutfall nýsmita er meðal innflytjenda.
Um síðustu helgi safnaðist stuðningsfólk fótboltaliðsins AGF saman á Ráðhústorginu í Árósum og fögnuðu góðum árangri liðsins í meistaradeildinni og er það mat lögreglunnar að þar hafi ýmislegt mátt betur fara. Fólk hafi látið eins og Kínaveiran væri ekki til og lét alla varúð í samskiptum og snertingu lönd og leið. Heilbrigðisyfirvöld geta ekki fullyrt eins og er hvort eða hve mörg nýsmit megi hugsanlega rekja til samkomunnar á Ráðhústorginu. Fyrir utan að hefja upplýsingaherferð meðal Sómala í borginni hafa allar reglur um umgengni á elliheimilum borgarinnar verið hertar. Ráðist verður í að skima alla starfsmenn elliheimila sem eru um 4.000 til 5.000 talsins og verða þeir skimaðir á 14 daga fresti þar til náðst hefur að ráða niðurlögum Kínaveirunnar í borginni og landinu.