Ísland týnt og tröllum gefið?

Óhætt er að segja að stjórnmálaástandið á Íslandi er ekki gott í dag og stjórnmálastéttin endurspeglar ekki þjóðina nema að hluta til. Segja má allir flokkarnir á Alþingi séu eins, nema Miðflokkurinn sem reynir að vera öðru vísi að einhverju leyti.

Engir leiðtogar eru til innan stjórnmálastéttarinnar og ekkert heyrist frá leiðtoga stærsta flokks landsins, Bjarni Benediktsyni sem virðist vera horfinn í Fjármálaráðuneytinu og gegna þar starfi skrifstofustjóra. Hinir ,,leiðtogarnir” viðhalda sömu orðræðuna og skera sig ekki úr. Þegar Bjarni birtist á sjónvarpsskjánum, er það til að ræða tæknileg vanda stjórnsýslunnar en fyrir hvaða gildi og hugsjónir stendur hann?

Að vera leiðtogi er að leiða hóp fólks áfram og tala um það sem sameinar hann og hvert eigi að halda. Það þýðir erfiðar ákvarðanir sem staðfastur leiðtogi þorir að taka. Til dæmis að ganga ekki til stjórnarsamstarf við andstæða flokka sem eiga ekkert sameiginlegt við flokkinn sem hann leiðir. Þetta virðist samt ganga upp, vegna þess að gildin og hugsjónirnar eru skilin eftir upp í hillu.

Engin gildi lengur eða hugsjónir virðast vera í gangi hjá ráðamönnum, bara að gefa allt frjálst og veita sem mest réttindi og halda að það leiði til vinsælda. Þeir gleyma að réttindi og frelsi fara ekki alltaf saman. Réttindi geta skert frelsið og öfugt. Enginn þorir að taka af skarið og koma með skýra framtíðarsýn fyrir land og þjóð. Jón Sigurðsson þorði, tók af skarið og leiddi Íslendinga áfram á 19. öldinni og mun hann lifa í minningunni svo lengi sem íslensk saga er kennd.

Stoltið af land og þjóð er farið og ekkert tók við. Er enginn að spyrja spurninga eins og þessar: Er öruggt að hér verði töluð íslenska eftir 10 ár? Venjulegur maður fer ekki í gegnum daginn án þess að tala ensku á einhverjum tímapunkti. Eða hér verði íslensk menning? Kannski verða Íslendingar í minnihluta um miðja öldina og enska aðal tungumálið. Við höfum séð margar þjóðir hverfa og aldrei hafa eins margar þjóðir horfið eins og á 20. öldinni.

Til verða nýjar þjóðir og aðrar hverfa, það er gangur sögunnar en samt hefur eyþjóðum gengið best að varðveita einkenni sín og Ísland er eyland og ætti að geta haldið sínum sérkennum. Það passar enginn upp á Íslendinga nema þeir sjálfir. Ef leiðtogar þessa lands eru ekki tilbúnir eða hafa ekki áhuga á landi og þjóð, þá er fyrirséð að hér verði ástandið ekki gott í framtíðinni.  

Kannski er bara allt í lagi að íslensk tunga og menning hverfi, menn geta alltaf lesið um þessa þjóð í sögubókum! Það er að segja ef saga verður kennd yfir höfuð í skólum. Nú kallast sögukennslan ,,samfélagsfræði“ og búið að samþætta hana við aðrar kennslugreinar og útþynna. Það er hending ef stúdent veit til dæmis eitthvað um seinni heimsstyrjöldina að ráði eða þekkir sögu íslenska lýðveldisins. Fjall án nafns og sögulaust fólkið undir því, er bara grjóthrúga og samansafn af einstaklingum án uppruna, gildis eða tilgangs.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR