Sett voru í lög lagabálkur útlendinga og um atvinnuréttindi útlendinga (nr. 80/2016). Þau voru umdeild á sínum tíma og voru hreyfingar í báðar áttir, annars vegar að leyfa ótakmarkaðan innflutning og opin landamæri en hins vegar að herða á ákvæðum þá verandi útlendingalög.
Umræða um útlendinga og stöðu þeirra hefur verið hálfgert feimnismál og stjórnmálamenn ragir að taka afstöðu. Það er engum til góðs, allra síst útlendingunum sem jú þurfa skýrar reglur og lög sem gilda um þá sjálfa. Á síðasta löggjafarþingi var frumvarp til laga um breytingu á lögum um útlendinga lagt fram á 149. löggjafarþingi (þskj. 1334, 838. mál) en náði ekki fram að ganga. Dómsmálaráðherra ætlar að endurflytja frumvarpið að mestu óbreytt, en helstu viðbætur fela einkum í sér breytingar á tilgreindum ákvæðum laga um útlendinga varðandi útgáfu dvalarleyfa annars vegar og laga um atvinnuréttindi útlendinga varðandi útgáfu tímabundinna atvinnuleyfa hins vegar.
Ef litið er á breytingartillögurnar, sem eru viðamiklar, þá stendur ekki steinn yfir steini í útlendingalagabálknum, enda illa ígrundaður og saminn í mestum flýti. Meint mannúðarsjónarmið réðu miklu í lögunum frá 2016, sem voru á sandi reist. Nú eru afleiðingar að koma nú í kollinn á núverandi þingmönnunum, sem margir hverjir sátu þá á þingi 2016 og samþykktu óskapninginn.
Í greinagerðinni sem fylgjir breytingatillögunum segir meðal annars: ,, Fjölgun umsókna um alþjóðlega vernd á Íslandi síðustu misseri sýnir glögglega hve mikilvægt er að standa vörð um verndarkerfið ef vanda á meðferð umsókna þeirra sem hingað leita eftir alþjóðlegri vernd gegn ofsóknum, ýmist í stríðshrjáðum löndum eða ríkjum þar sem stjórnarfar býður upp á ofsóknir á hendur borgurum.“
Með öðrum orðum er hér verið að segja að nýju útlendingalögin jafngildu opnum landamærum, þar sem allir sem hug höfðu á, gátu sótt um hæli, sama hvaða grundvöllur lá þar að baki.
Það kemur líka bersýnilega fram að lögin voru hvatning til tilhæfulausra umsókna í stað þess að efla verndarkerfið. Allir skilja að Ísland er lítið land, nema kannski vinstri menn, sem halda að alltaf sé til nægir peningar til að taka við ótakmörkuðum fjölda hælisumsókna. Það er hreinlega ekki veruleikinn. Ekkert ríki í heiminum (jafnvel ekki Svíþjóð sem hefur viðurkennt vanmátt sinn), getur sinnt öllum flóttamönnum sem vilja koma. Ef mannúðarsjónarmiðið væri raunverulegt hjá íslenskum stjórnvöldum, myndu þau bjóða 4 milljónum flóttamanna frá Sýrland til Íslands strax á morgun. Veruleikinn segir annað, það er ekki hægt. Ríkið yrði gjaldþrota á stundinni.
Þess vegna verður handvelja (staðreynd) þá sem hingað sækja hæli og það verður að vingsa úr þá sem sem eru efnahagsflóttamenn eða flakka milli landa til að setjast upp á velferðakerfi viðkomandi lands. Hælisumsóknir þeirra sem raunverulega þurfa hjálp á að halda, vilja oft týnast í flóði umsókna. Er það tilgangurinn?
Það er augljós þegar rýnt er frekar í greinagerðina en þar segir: ,,Á árinu 2016 fjölgaði umsækjendum um alþjóðlega vernd á Íslandi um 778, þ.e. umsóknir fóru úr 354 árið áður í 1.132 en þá hafði umsóknum einnig fjölgað verulega. Meiri hluti þessara umsækjenda voru ríkisborgarar Makedóníu og Albaníu, sem hafa verið skilgreind sem örugg upprunaríki á grundvelli 2. mgr. 29. gr. laga um útlendinga, nr. 80/2016, og umtalsverður fjöldi frá öðrum ríkjum þar sem fyrir liggur að almennt er engin ástæða til að flýja ofsóknir. Á árinu 2017 hélt þessi þróun áfram og þegar leið á árið var fjöldi umsækjenda um alþjóðlega vernd á Íslandi orðinn einn sá mesti í Evrópu og langmestur á Norðurlöndum, miðað við höfðatölu, þrátt fyrir legu landsins.
Í kjölfar fordæmalausrar fjölgunar umsókna ríkisborgara öruggra upprunaríkja hér á landi kom í ljós að íslenskt verndarkerfi er að mörgu leyti berskjaldað fyrir ásókn þeirra sem senda inn bersýnilega tilhæfulausar umsóknir og annarra umsækjanda sem almennt má telja að séu ekki í þörf fyrir alþjóðlega vernd.
Vegna fjölgunar umsækjenda frá öruggum upprunaríkjum lögðu stjórnvöld áherslu á hraðari afgreiðslu þessara mála með því að styrkja forgangsmeðferð bersýnilega tilhæfulausra umsókna. Með það að markmiði að auka skilvirkni og draga úr fjölda umsókna sem þessara var reglugerð um útlendinga nr. 540/2017 breytt með reglugerð nr. 775/2017. Þar var m.a. mælt fyrir um sérstaka málsmeðferð, þ.e. forgangsmeðferð bersýnilega tilhæfulausra umsókna, sem átti að stytta málsmeðferðartíma. Eftir gildistöku reglugerðarinnar mat kærunefnd útlendingamála það svo að ákveðin ákvæði umræddrar reglugerðar hefðu ekki fullnægjandi lagastoð og hefur henni því ekki verið beitt að fullu. Því er talin ástæða til að færa efni hennar að hluta inn í lögin sjálf. Aðgerðir stjórnvalda til að draga úr fjölda bersýnilega tilhæfulausra umsókna báru verulegan árangur.
Ríkisborgurum frá öruggum ríkjum sem sóttu um alþjóðlega vernd hérlendis fækkaði mjög á síðari hluta ársins 2017 og umsækjendum um alþjóðlega vernd á framfærslu hér á landi fækkaði úr rúmlega 700 manns í ársbyrjun 2017 í rúmlega 400 þegar kom fram á árið 2018.“
Íslendingar hafa verið virkir í þróunaraðstoð við fjölmörg ríki og gert vel. En þeir hafa alla tíð verið sér meðvitaðir um að fjárráð og fjármagn til aðstoðar er takmörkuð auðlind. Þeir hafa því einbeitt sér að einstökum ríkjum og hjálpað þeim að hjálpa sjálfum sér.
Eins er með raunverulega hælisleitendur, það ber að hjálpa þeim en taka á sama tími mið af takmarkaðri getu til að taka á móti öllum umsóknum. Hjálpum þeim sem sækja um hæli til að hjálpa sjálfum sér, annað hvort til varanlegrar búsetu eða til skamms tíma. Í mörgum ríkjum eru flóttamenn veitt tímabundin hælisvist, á meðan t.d. stríðsástand stendur, en ætlast er til að þeir snúi heim aftur. Gott dæmi um þetta þegar Vestmannaeyingar fengu ,,hæli“ á meginlandi Íslands 1973 en ætlast var til að þeir snéru aftur. Lang flestir gerðu það.