Um þessar mundir glíma mörg íslensk fyrirtæki, ef ekki flest við rekstrarerfiðleika vegna kórónuveirufaraldursins. Sum eru þegar gjaldþrota en önnur á leið í gjaldþrot. Á sama tíma rísa önnur upp, en hér sögðum við frá opnun nýs matbars nýverið, Ice + Fries á Hafnartorgi.
Ástæður fyrir gjaldþrot fyrirtækja eru margvíslegar, sumar í höndum eigenda en aðrar vegna ytri aðstæðna. Eflaust reyndu eigendurnir sitt besta að koma í veg fyrir gjaldþrot, enda lifibrauðið og sparnaðurinn oft í hættu. Stundum verður skellurinn rosalegur, fólk missir húsnæði sitt og allt fjármagn. Skemmst er að geta falls flugfélagsins WOW, Þar reyndi frumkvöðullinn Skúli Mogensen nýjar leiðir en því miður, féll flugfélagið. Á undan hafði fyrirtækið skapað mörg afleidd störf og fært íslensku þjóðarbúi miklar tekjur, sem munaði um eftir kreppuna 2008.
Grunnstefið í markaðshagkerfinu er að þeir hæfustu lifa af og aðrir verða undir. Markaðshagkerfið líkir eftir náttúrunni og þess vegna hefur það reynst vera besta efnahagskerfið sem mannkynið hefur fundið upp. Helstu kostir þess er lægra verð, betri þjónusta og vara. Ef t.d. kapitalistinn Henry Ford, hefði ekki hafið framleiðslu á T Ford á hagstæðu verði, þá hefði almenningur í Bandaríkjunum þurft að bíða þar til eftir seinni heimsstyrjöld, líkt og í Evrópu, eftir nýjum bíl. Kapítalismann sem þrátt fyrir ófullkomleika hefur tryggt aukna velmegun og frelsi til orða og æðis fyrir alla og allir hafa sitt tækifæri.
Hinn möguleikinn er sameignarkerfið – sósíalismi. Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins skrifaði ágæta grein um kapítalismann, ,,Kapítalisminn er ekki fullkominn – Getum ekki skellt skollaeyrum við kröfur þeirra lægst launuðu.” Segir hann síðan að hugmyndafræði sósíalismans hafi hvergi gengið upp:
„Hugmyndafræði sósíalismans hefur hvergi gengið upp – hvergi staðið undir þeim fögru loforðum og fyrirheitum sem gefin hafa verið og margir heillast af. Skiptir engu hvort litið er til blóði drifinnar sögu Sovétríkjanna sálugu, eða þeirrar martraðar sem almenningur býr við í dag í Norður-Kóreu, á Kúbu eða í Venesúela. Sósíalisminn lofar öllum velmegun, jafnrétti og öryggi. Hugmyndafræðin hefur skilað fátækt, eymd, misrétti og ofbeldi.“
Hann segir síðan að undir formerkjum jöfnuðar sé persónufrelsið tekið yfir af stjórnvöldum fyrir hönd fólksins. Hlutverkið verði ekki lengur að tryggja réttindi einstaklinga eða standa vörð um réttarríkið heldur fara með völdin í nafni alþýðunnar.
Þetta er rifjað upp, því að nú eru forsetakosningarnar framundan tengdar við markaðshagkerfið.
Andstæðingar Guðmundar Franklíns, forsetaframbjóðanda, vilja tengja gjaldþrots fyrirtækis sem hann var í forsvari fyrir við skömm. Þess er vert að rifja upp að Guðmundur var stjórnarformaður í verðbréfafyrirtækinu Burnham International á Íslandi. Viðskiptaráðuneytið afturkallaði starfsleyfi þess árið 2001 og félagið varð gjaldþrota árið 2002. Var gjaldþrotið að hluta rekið til kaupa á bresku netfyrirtæki sem hrundi í verði. Kröfur í þrotabúið námu hátt í hálfan milljarð króna. Lítið var af eignum í búinu og fóru langvinn dómsmál af stað í kjölfar gjaldþrotsins.
Guðmundur Franklín rifjar upp þessa sársaukafullu minningar á Facebook síðu sinni. Hann segir sjálfur: ,, Það er erfið og niðurbrjótandi lífsreynsla þegar fyrirtæki sem maður hefur lagt krafta sína í að sinna fer í þrot. Á þessum óvenjulegu og óvæntu tímum eru margir sem standa frammi fyrir þessum veruleika og ég veit það tekur þá nærri að horfa á eftir félaginu sínu til bankanna.
Það er enginn sem lýsir yfir gjaldþroti sér til gamans og því kemur mér alltaf á óvart sá svarti blettur eða “stigma” sem margir vilja reyna að klína á heiðvirt fólk sem hefur sökum ytri aðstæðna orðið fyrir þessu. Það var enginn sem bjóst við heimsfaraldri. Það voru heldur ekki margir sem bjuggust við alheimskreppu á sínum tíma eða því að tæknibólan myndi springa.
Aðstæður sem þessar koma því miður upp og stundum veðja menn á rangan hest og verða þá að taka því eins og svo mörg fyrirtæki í ferðaþjónustu í dag. Við eigum hins vegar ekki að úthrópa þá sem hafa orðið fyrir þessu heldur frekar styðja við bakið á þeim því þetta er alls ekki auðvelt.
Ég þekki marga góða menn sem eru nú að missa sitt lífsviðurværi sökum veirunnar og ég heyri hvað þeim þykir það sárt. Ekki bætir úr skák þegar aðgerðir stjórnvalda, sem eiga að hjálpa þeim, gera hið gagnstæða. Þessar sögur hafa rifjað upp hjá mér sárar minningar þegar mitt eigið fyrirtæki fór í gjaldþrot og langar mig að segja ykkur örlítið frá því.
Félag var og hét Handsal og það félag lenti í miklum fjárhagslegum hremmingum og meðal hluthafa í félaginu voru lífeyrissjóðir sem áttu meira en 70% af hlutaféinu. Mér var boðið að kaupa félagið á hrakvirði og reyna að bjarga því frá gjaldþroti sem ég og gerði. Ég gekkst þar í persónulegar skuldbindingar.
Handsal, endurskírt Burnham International gekk ágætlega fyrstu tvö árin eftir að ég keypti það. Perónulega var ég með um þriðjung hlutafjár í félaginu. Restin af hlutaféinu var í eigu annarra hluthafa en þar voru engir lífeyrissjóðir. Þeir voru á þessum tíma búnir að selja allan sinn hlut.
Ástæðan fyrir velgengninni í upphafi var vegna mikils uppgangs á mörkuðum og sérstaklega í nýjabruminu af netfyrirtækjum. Eftir aldamótin átti sér svo stað bankakreppa þegar fyrirtækjamarkaðurinn með internetfyrirtæki hrundi. Þar sem fjárfestingabók félagsins Burnham var að mestu leyti byggð á slíkum félögum þá hrundi hún með og varð Burnham gjaldþrota skömmu síðar.
Þar sem ég hafði gengist í persónulega ábyrgð, skall gjaldþrotið harkalega á mér sjálfum. Tekið hafði verið veð í mínum helmingi í heimili okkar hjóna sem varð til þess að við urðum að selja ofan af okkur. Þetta var mjög erfið lífsreynsla fyrir mig og mína fjölskyldu.
Segja má að ég hafi lent í lífsins ólgusjó og eftir á að hyggja þá hefði ég gert margt öðruvísi en það þýðir víst ekki að gráta Björn bónda.
Ég kenni engum öðrum en sjálfum mér um ófarir Burnham Int. en þessi reynsla kenndi það mér þá lexíu að ef menn ætla að vera í viðskiptum á Íslandi þá er eins gott að vera við gufugatið en ekki í annarri heimsálfu. Ég tel mig koma margs vísari eftir þessa reynslu og veitir hún mér m.a. skilning á þeim erfiðleikum sem samlandar mínir í fyrirtækjarekstri upplifa nú.”
Eflaust geta aðrir íslenskir athafnamenn sem hafa farið í gegnum gjaldþrot, deilt svipaða reynslusögu, og líkja má þessa reynslu við erfiðan skilnað, þar sem fyrirtækið var allt sem lífið snérist um. En gjaldþrot er í raun daglegt brauð eins og sjá má hér í eftirfarandi töflu.
Í meðfylgjandi töflu má sjá að gjaldþrot fyrirtækja rokka frá u.þ.b. 600 árið 2015 upp í rúm 1500 árið 2011. Miðgildið er í kringum 1000 fyrirtæki sem fara í gjaldþrot.
Slíkur uppgangur hefur verið í íslensku efnahagslífi síðastliðinn áratug, að fleiri hlutafélög og einkahlutafélög eru skrá en þau sem fara í gjaldþrot.
Ef við horfum á þessi tvö ár sem hér eru tekin fyrir; 2015, þá voru 2.391 skráð ný fyrirtæki, en gjaldþrot voru 588. Árið 2011, fóru 1.579 fyrirtæki í þrot en 1.706 nýskráð eins og fyrr sagði.
Líkja má þetta við gangverk samfélagsins, þegar borið er saman fæðingar við fjölda dána. Gangur náttúrunnar og sama gildir um gang markaðshagkerfisins, ris og fall á víxl. Gjaldþrot fyrirtækja (sem og einstaklinga og fjölskyldna) er gangur lífsins.