Þjóðaröryggisráð Íslands vill stjórna orðræðu um heimsfaraldur – Aðför að málfrelsi á Íslandi?

Þær undarlegu fréttir berast úr Stjórnarráðinu, að þjóðaröryggisráð Íslands hefur ákveðið ,,að koma á fót vinnuhópi til að kortleggja birtingarmyndir og umfang upplýsingaóreiðu í tengslum við COVID-19 hér á landi og gera tillögur um aðgerðir til þess að sporna gegn henni.“

Jafnframt segir í tilkynningunni að íslensk stjórnvöld eru nú í samstarfi við önnur EES-ríki um að sporna gegn upplýsingaóreiðu og rangfærslum í tengslum við COVID-19. Svo er haldið fram að sjaldan hafi verið mikilvægara að almenningur hafi aðgang að réttum upplýsingum eins og nú í tengslum við þennan heimsfaraldur sem nú geisar.

Hvað kemur Þjóðaröryggisráði við hvaða orðræða er í gangi varðandi Wuhan veiruna, öðru nafni COVID-19? Er það hlutverk þess að skipta sér af tjáningarfrelsinu í landinu?

Upp vakna nokkrar spurningar. Hvað er rétt eða villandi umræða? Er einhver ritskoðunarnefnd sem á að ákveða hvað er rétt eða rangt? Er, ríkisskoðun sú eina rétta? Hversu langt nær valdsvið slíks vinnuhóps, öðru nafni ritskoðunarnefndar? Ætlar vinnuhópurinn að ritskoða erlendar fréttir og félagsmiðla? Til dæmis Facebook?

Önnur meginspurning vaknar. Hver er hlutverk Þjóðaröryggisráðs? Í lögum ( https://www.stjornarradid.is/raduneyti/nefndir/nanar-um-nefnd/?itemid=da5c64e2-5542-11e7-941a-005056bc530c ) um hlutverk þess segir að það ,, hefur eftirlit með því að þjóðaröryggisstefna fyrir Ísland sé framkvæmd í samræmi við ályktun Alþingis og skal vera samráðsvettvangur um þjóðaröryggismál. Ráðinu er enn fremur ætlað að meta ástand og horfur í öryggis- og varnarmálum og fjalla um önnur málefni sem varða þjóðaröryggi. Þá gera lögin ráð fyrir að þjóðaröryggisráð, í samvinnu við háskólasamfélagið, hugveitur og fjölmiðla, beiti sér fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál.“

Samkvæmt þessari setningu, ,,beiti sér fyrir opinni og lýðræðislegri umræðu um þjóðaröryggismál“ og skipun vinnuhóps sem á að stjórna umræðunni um COVID-19, þá virðist Þjóðaröryggisráðið fara langt út fyrir valdssvið sitt og einmitt beita sér gegn opinni og lýðræðislegri umræðu.

Svo langt, að það minnir á vinnubrögð kínverskra stjórnvalda. Hér skal taka eitt dæmi. Huginn stundar viðskipti við Kína. Hann sagði viðskiptavini á Alibaba, í spjalli (Alibaba messager), að erfitt væri að skipta gjaldeyri í íslenskum bönkum vegna ,,Chinese virus“. Lokað var á þessa setningu, enda ritskoðun í gangi í Kína og þetta telst vera ,,óþægileg setning.“ Kínverjar nota gervigreind, til að loka á óþægileg orð eins og ,,Wuhan virus“.

Frjáls skoðunarskipti er undirstaða vestrænna samfélaga og margvísleg umræða á sér stað í frjálsu samfélagi. Sum skoðanaskipti gætu reynst óþægilegar aflestrar eða áhorfs en frjálsar umræður í þjóðfélaginu eiga einmitt að leiðrétta rangfærslur eða a.m.k. benda á þær.  Fólk á að hafa rétt á að hafa rangt fyrir sér enda frjálsir borgarar, án afskipta ríkisvaldsins, en við getum verið alveg viss um að almenningur leiðréttir vitleysuna eða hunsar hana ef hún birtist.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR