Rúmlega 90 einstaklingar í Suður-Kóreu sem læknar töldu vera orðnir lausir við kórónaveiruna og heilbrigðir hafa nú við skimun reynst aftur vera smitaðir. Ekki er ennþá vitað hvort þeir voru ranglega greindir lausir við veiruna eða hvort þeir smituðust aftur. Jeong Eun-kyeong sem fer fyrir baráttu yfirvalda í Suður-Kóreu gegn veirufaraldrinum (KCDC) telur jafnvel að hugsanlegt sé að veiran hafi „kveikt“ á sér aftur frekar en að þeir hafi smitast aftur.
Heilbrigðisráðherra landsins leggur þó áhersu á að ekkert liggi fyrir um hvernig á því stendur að veiran finnst aftur í fólkinu.
KCDC hefur sent yfirvöldum í borginni Daegu, sem hefur orðið hvað verst úti í faraldrinum, boð um að rannska málið vel svo varpa megi einhverju ljósi á hvað hafi gerst.
Smitrakningar-app hefur verið tekið í notkun í Suður-Kóreu og er barátta yfirvalda að skila árangri. Á föstudag var aðeins vitað um 27 ný smit og hafa ekki verið greind færri smit á einum degi hingað til. Fréttirnar um að fólkið sem búið var að úrskurða heilbrigt og laust við veiruna skuli nú hafa greinst aftur með veiruna vekja upp ótta um að ný bylgja smita sé í uppsiglingu í landinu og undrast vísindamenn þann möguleika að veiran hafi í raun legið í dvala í fólkinu ef það er raunin.