Norska ríkisútvarpið fjallar í dag um þá aðferð Íslendinga að skima fullfrískar persónur fyrir kórónaveirunni og sagt er að nú ætli norsk yfirvöld að gera það sama.
Fréttin byrjar á að lýsa hinum harða vetri sem getur komið á Íslandi, talað er um efnahagsstorminn sem hér varð með falli bankanna og eldgos og sagt er að Íslendingar séu vanir að standa í storminum og standa hann af sér.
„Hér ríkir faraldur sem er að eyðileggja efnahaginn okkar. Efnahagurinn er að hrynja vegna veirunnar. Fólk er sett í sóttkví. Og fólk er að deyja,“ segir Kári Stefánsson forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar í samtali við NRK.
Sagt er frá því hvernig Erfðagreining bauðs til að skima eins marga og mögulegt er til að kortleggja útbreiðslu veirunnar á landinu og þegar hann er spurður hvers vegna einkafyrirtæki hafi ráðist í þessar aðgerðir á eigin kostnað segir Kári að það hafi verið borgaraleg skylda fyrirtækisins að gera þetta.
Íslendingum er hrósað fyrir þessar aðgerðir og greint frá því að ekkert land í heiminum hafi skimað jafn marga íbúa.
Vissi ekki að hann var smitaður
Rætt er við Arnar Thor Ingólfsson sem fór í skimun hjá Erfðagreiningu. Eftir að hafa svarað því neitandi hvort hann væri smitaður eða væri í sóttkví fékk hann að fara í próf. Það hafi komið honum algjörlega á óvart að í ljós kom í skimun að hann var smitaður af kórónaveirunni.
Norski landlæknirinn segir aðferðir Íslendinga merkilegar
NRK hafði samband við sóttvarna yfirvöld í Noregi og bar fréttina undir þau. Þar var umfjölluninni komið áfram í kerfinu og þótti merkileg. Eftir samtöl í kerfinu segir NRK að yfirvöld hafi ákveðið að taka upp sömu aðferðir og Íslendingar, það er að segja að skima alla.