Lögreglan í Noregi: Ekki halda sóttkvíarpartý!

Norska lögreglan hefur séð sig tilneydda til að senda frá sér aðvörun til ungs fólks þar í landi í tilefni þess að skólum hefur verið lokað. Svo virðist sem margt ungt fólk sé ekki alveg með á hreinu til hvers skólum hefur verið lokað og líta á það sem frí. 

Lögreglan hefur orðið vör við það að ungt fólk hafi boðað til sóttkvíarpartýs til að fagna því að skólum hafi verið lokað. En slíkt fer auðvitað gegn tilgangi þess að loka skólum sem er að koma í veg fyrir að margir séu á sama stað á sama tíma vegna smithættu.

Foreldrar líka vandamál

En það er ekki bara unga fólkið sem virðist ekki skilja hugmyndina á bak við lokun skóla og vinnustaða. Eins og gefur að skilja getur mjög ungum börnum sem enn eru í grunn- eða leikskóla leiðst einveran. Nú hafa einhverjir hugmyndaríkir foreldrar dottið það „snjallræði“ í hug, að þeim finnst, að auglýsa eftir leikfélögum á netinu fyrir barnið sitt og dæmi eru um að börn hafi hist í smærri hópum í heimahúsi til að leika sér saman. Þetta er að sjálfsögðu afleit hugmynd að mati yfirvalda. Bæjarfélög hafa gefið út leiðbeiningar til foreldra þar sem tekið er fram að ekkert sé að því að systkini leiki sér saman en ef börn fari út að leika eða séu að leika sér inni með barni sem sé ekki systkini þá beri að sjá til þess að þau haldi góðri fjarlægð á milli sín. 

Hittast til að spila og fara í leiki

Það er lítið við að vera þegar allt er lokað og fólki leiðist eitt heima. Frést hefur af fólki sem hóað hefur saman vinum og kunningjum á einn stað til að stytta sér stundir meðan allt er lokað. Þá er tekið í spil og farið í leiki. Yfirvöld hafa varað fólk við svoleiðs samkomum enda aldrei að vita hver er smitaður. 

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR