Áhrif kórónaveirunnar eru í hámarki. Mikil lækkun hefur orðið á fjármálamörkuðum víða um heim og hefur verð hlutabréfa lækkað. Strax í morgun var ljóst að markaðir í Asíu voru byrjaðir að falla verulega og ekkert nema rautt á skjáum hlutabréfamarkaða. Hlutabréfamarkaðir í Japan og Ástarlíu hafa fallið um 6% en um 3% í kauphöllum í Suður-Kóreu og Singapore. Þar bættust ofan á áhyggjur fjárfesta af kórónaveirunni fréttir af lækkun Sádí-Araba á olíuverði.
Bæði góðar og slæmar fréttir bárust af framrás kónónaveirunnar. Góðu fréttirnar eru þær að svo virðist sem veiran sé í rénum í Kína og samkvæmt fréttum þaðan hefur mörgum spítölum sem opnaðir voru til að hefta útbreiðslu veirunnar hreinlega verið lokað þar sem smituðum hefur fækkað svo mikið. Á móti kemur að veiran virðist enn vera í uppgangi í Evrópu og bárust fréttir af því í morgun að 1.112 væru smitaðir í Þýskalandi. Tilfellum í Suður-Kóreu heldur áfram að fjölga.
Norwegian heldur áfram að falla – Telja hættu á öðru 2008 hruni
Hlutir í norska flugfélaginu Norwegian halda áfram að falla. Þegar markaðir opnuðu í morgun féllu hlutir í félaginu um 30%. Hlutir í dönsku kauphöllinni féllu líka við opnun í morgun.
Sumir greinendur á Norðurlöndum og í Evrópu telja sig sjá í spilunum nýtt fjármálahrun líku því sem varð 2008 þegar bankar fóru umvörpum á hausinn meðal annars hér á landi. Allt bendi nú til að peningaprentvélar Evrópusambandsins og Bandaríkjanna verði settar í gang því ljóst sé að gangi þessi spá eftir þurfi að grípa til neyðarráðstafanna.
Skemmtiferðaskip fá ekki að leggja að bryggju
Nú er skemmtiferðaskipið Grand Princess á leið til Kaliforníu þar sem áætlað er að leggjast að bryggju í dag. Skipið er í sóttkví vegna kórónasmita um borð.
Eldri maður lést nýlega um borð í skipinu af völdum veirunnar og minnst 21 er smitaður.
Yfirvöld í Bandaríkjunum eru að gera allt klárt til að taka við farþegunum og vinnur líka í því samhliða að róa almenning í ríkinu en mikill ótti og óánægja ríkir meðal almennings vegna komu skipsins. Óttast almenningur að smit frá skipinu berist í land og breiðist út um ríkið.
Skemmtiferðaskipið Westerdam hefur árangurslaust reynt að fá að leggjast að bryggju í Asíu en ekki fengið af ótta við kórnóaveiruna. Ekki er vitað um nein smit þar um borð en vegna þess að skipið var í Hong Kong þar sem kórónasmit hafa greinst er það nóg til þess að önnur lönd vilja ekki að skipið leggist að bryggju hjá sér. Sömu sögu er að segja um skemmtiferðaskipið Costa Fortuna sem var neitað um að leggjast að bryggju í Tælandi á þeim forsendum að það væru Ítalir um borð.