Óttinn við útbreiðslu kórónaveirunnar tekur á sig ýmsar myndir. Skólastjóri í dönskum framhaldsskóla hefur fengið hótanir vegna þess að hann sér enga ástæðu til að aflýsa skólaferðalagi til Ítalíu.
Skólinn er í Nørresundby. Skólastjórinn, Søren Hindhsøj, hefur fengið bæði símtöl og pósta með hótunum eins og: „Þegar börnin koma veik heim þá vitum við hver þú ert og hvar þú ert,“ hljómaði eitt símtalið. Danska ríkisútvarpið fjallar um málið.
Skólastjórinn segir að hann hafi fengið stuðning frá bæði nemendum og foreldrum og undirstrikar að engin sé neyddur í ferðina. Skilaboðin sem hann hefur fegnið undanfarna daga eru hins vegar nafnlaus.
Ein skilaboð sem send voru í tölvupósti hljómuðu svona: „Góða ferð. Ef einhver af þeim sem ég elska verður veikur og hægt er að rekja það til ykkar nemenda, mun ég gera þig persónulega ábyrgan.“ Hótanirnar hafa ekki fengið hann til að skipta um skoðun og ekki segist hann hræddur. Hann hefur ákveðið að tilkynna ekki þessar hótanir til lögreglunnar en segist ætla að sýna hræðslu fólks skilning þó hann telji hana óþarfa. Hann segir að nemendur og kennarar muni fara að öllu með gát á Ítalíu og spritta hendur og gæta fyllsta hreinlætis í hvívetna.