Sjálfstæðismenn gagnrýndu það þegar vinstri borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík samþykkti 2017 að fjölga borgarfulltrúum í 23. Töldu þeir hugmyndirnar þenja út báknið og spurðu af hverju borgarfulltrúum væri ekki alveg eins fjölgað í 70 til 80. Færri vita að það voru Sjálfstæðismenn sem byrjuðu vinnu við þessar hugmynir árið 1980. Þá töluðu þeir jafnvel um að hver borgarráðsmaður fengi sitt „ráðuneyti“ og vísuðu í að hver borgarráðsmaður átti að sjá um ákveðin málaflokk.
Í frétt Morgunblaðsins frá þessum tíma segir:
„Albert Guðmundsson borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins sagði á borgarstjórnarfundi á fimmtudagskvöldið að uppi væru hugmyndir innan stjórnkerfisnefndar borgarinnar um að fjölga borgarfulltrúum í 21 eða jafnvel 27.
Albert gat þess ennfremur að menn veltu því fyrir sér að fjölga jafnframt í borgarráði upp í sjö eða níu fulltrúa og jafnframt yrði starfi borgarráðs breytt á þann veg að hver borgarráðsmaður myndi hafa yfirumsjón með ákveðnum málaflokkum, líkt og ráðherrar í ríkisstjórn.
Í stjórnkerfisnefnd borgarinnar eiga sæti fimm menn, en það eru þeir Albert Guðmundsson og Davíð Oddsson fyrir Sjálfstæðisflokk, Adda Bára Sigfúsdóttir fyrir Alþýðubandalag, Sjöfn Sigurbjörnsdóttir fyrir Alþýðuflokk og Eiríkur Tómasson fyrir Framsóknarflokk.
Nefnd þessi hefur haldið tvo fundi og mun starf hennar vera á byrjunarstigi.“
Þess má geta að Alþýðubandalagið og Alþýðuflokkurinn sameinuðust í Samfylkingunni sem er nú í stjórn borgarinnar og stóð fyrir að fjölga borgarfulltrúum 2017.