Óvenjulegur atburður átti sér stað í Reykjavík að kvöldi 17. febrúar 1984. Þá var framið vopnað rán við útibú Landsbanka Íslands að Laugaveg 77. Á þessum árum komu fyrirtæki með dagssöluna í sérsökum peningapokum og settu í næturhólf (ekki ólíkt bréfalúgu nema auðvitað töluvert stærri). Þetta kvöld var það starfsmaður ÁTVR sem var að koma með dagssöluna af sölu áfengis þann daginn úr áfengisútsölunni sem þá var við Lindargötu í Reykjavík.
Eftir honum beið ræningi vopnaður haglabyssu og skaut hann tveimur skotum úr haglabyssunni áður en starfsmaðurinn féllst á að láta hann hafa peningana að upphæð 1840 þúsund krónur.
Hafði ræninginn áður tekið leigubíl út í Nauthólsvík þar sem hann ógnaði bílstjórnaum með byssunni, stal af honum leigubílnum sem hann notaði síðan til að flýja á eftir ránið.Lögreglan handsamaði ræningjann um tveimur vikum seinna og játuðu tveir ungir menn á sig verknaðinn. Megnið af ránsfengnum náðist til baka ásamt byssunni sem notuð var við ránið.