Stóriðja og sauðfjáreðli

Jens G. Jensson skrifar: Umræða dagsins er tap á störfum, störfum sem eru byggð á nýtingu náttúruauðlinda. Fyrir fimm áratuguum var fjárfest í stórvirkjun með tekjum frá stóriðju, sem bakhjarl að borga niður virkjunina. Ekki til að skapa stóriðju, hagnað, né afgerandi stöðu á  ‘Islenskum vinnumarkaði. Þá var AluSuisse, Evrópskt fyrirtæki, með góðan orðstýr sem gerði þetta stórvirki mögulegt. Þó gekk á ýmsu, stóriðja var ekki talin heppilegur atvinnuskapandi kostur, en ásættanlegur tímabundið fyrir þessa stóru fjárfestingu í Búrfellsvirkjun. En viðskifti við Alþjóðlega auðhringa eru ekki alltaf á færi kjörinna fulltrúa, pólitík og breytilegir vindar, er slæm samningsstaða og margir muna “Hækkun í hafi” sem var aðferð til að minnka afleiddar greiðslur til samfélagsins. Þetta er ekkert óeðlilegt, bara hluti af stjórnun stórfyrirtækis fyrir hagsmunum hlutafa.  Alveg eins og raforkusamningurinn var gerður til hagsmuna samfélagsins og til ákveðins tíma sem spannaði yfir eðlilegan líf og afskriftartíma fjárfestingarinnar.

Að þessum tíma liðnum, og rúmlega það, urðu eigendaskifti. Þannig urðum við viðsemjendur “Rio Tinto” En, Rio Tinto,  með lakari orðstýr alþjóðlega hefði líklega ekki orðið viðsemjandi Íslenska Ríkisins snemma á sjötta áratugnum. Rio Tinto keypti verksmiðjuna (stóriðjuna) með nýjum (endurnýjuðum) raforkusamning, sem í tíma spannaði eðlilegan afskriftartíma á fjárfestingunni. Við fengum Status quo.

Núna hefur “Rio Tinto” haft sín ár til að afskrifa sína fjárfestingu, kannski með hluta, hækkun í hafi og stífum vaxtagreiðslum af lánsfé úr eigin sjóðum. Við skulum gera ráð fyrir að allt hefur verið fagmannlega gert til að lágmarka skattgreiðslur til samfélagsins. Sem er reyndar frumskylda stjórnenda fyrirtækja sem gæta hagsmuna eigenda sinna. En segjast nú standa frammi fyrir að fjárfestingin, sé ekki lengur arðbær. En samt að fullu afskrifuð. Hvaða sviðsmyndir eru í spilunum ? Nýta afskrifaðar eignir til framleiðslu, eða reyna að fá nýjan orkusamning og selja nýju félagi, sem afskrifar gamalt drasl í þriðja sinn, sem þýðir að verksmiðjan hafi verið afskrifuð 3svar sinnum í skjóli (hagstæðs)orkuverðs. Og samfélaginu haldið frá eðlilegum skattekjum af eðlilegri stafsemi. Hagstæður orkusamningur er góður stökkpallur fyrir góðan sölusamning, með tilheyrandi innleystum hagnaði af afskrifuðum eignum.

Umræðan gengur út á hagsmuni fámennisins, að Hafnfirðingar séu fórnarlömb, talað um hundruði starfa sem tapist, en enginn sem nefnir hvenær þau áunnust og á kostnað hvers. Hafnarfjörður er alls ekki afmarkaður vinnumarkaður, heldur hluti af Höfuðborgarsvæðinu, sem í dag nær til Reykjanesbæjar. Það hafa verið lögð niður mörg hundruð störf í Hafnarfirði síðan álverið í Straumsvík var reist. Þar má nefna Bæjarútgerð Hafnarfjarðar og núna síðast Fiskistofu. Hreinar pólitískar ákvarðanir sem hafa ekkert að gera með skynsamlega ráðstöfun á orkuauðlindum.

Til viðbótar höfum við lagt niður Áburðarverksmiðju og Sementsversmiðju. Það voru verksmiðjur sem framleiddu íslensk hráefni með íslenskri orku. Þó svo að framleiðslan hafi ekki verið seld í erlendum gjaldeyri, voru þær gríðarlega gjaldeyrisskapandi, við eyddum ekki gjaldeyri í kaup á því sem þær framleiddu. Samfélagið á fjölda möguleika á atvinnuskapandi og gjaldeyrissparandi iðnaði, sem byggist á ódýrri orku. Það er engin þörf að örvænta og halda áfram að selja orku til auðhringa sem hafa sem einbeittan ásetning að flytja hámarkshagnað úr landi framhjá skattheimtu samfélagsins. Við erum stórinnflytjendur af áburði, sementi, grænmeti, ávöxtum, meira að segja blómum. Að ekki sé talað um fiskeldið, sem við með “sauðfjáreðlið” ætlum að hleypa útlendingum með inn í landið og arðinn út. Bara fyrir nokkur störf, sem að miklu leyti eru mönnuð innfluttu vinnuafli, sem flytur út sem mest af launum sínum og fjárfestir í heimalöndum sínum. Samfélagið er tilbúið að gefa náttúruna og orkuna.

Þegar álverið í Straumsvík var reist, var þörf, síldin var nýhorfin, og þörf á bakhjarli til að fjármagna stórvirkjun. Núna er engin þörf. Notum orkuna okkar skynsamlega og í okkar þágu. Notum orkuna okkar til að skapa heilnæm störf við heilnæma framleiðslu á þeim vörum sem við erum samkeppnishæf um á eigin forsendum. Og umfram allt, látum ekki alþjóðasamtök komast með sín samkeppnissjónarmið inn, hvernig við verðleggjum orku á Íslandi. Seljum orku á hrakvirði, til framleiðslu úr Íslenskum hráefnum, fiskiræktar á náttúrulegum Íslenskum fiskistofnum, í sátt við okkar verðmæta umhverfi. 

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR