Hafa skal það sem sannara reynist

Fjölmiðlarmenn hér að vandasömu verki að greina frá staðreyndum.

Hér hefur verið tíðrætt um íslenska fjölmiðla og hvernig þeir meðhöndla upplýsingar og fréttir af bæði erlendum og innlendum vettvangi.  Það er margt athugavert hvernig íslenskir fjölmiðlar takast á við raunveruleikann sem blasir við fólk og hvernig þeir túlka það sem við blasir.

Fólk vill almennt fá hlutlausan fréttaflutning sem sjá má á að málsgögn flokka eru fyrir löngu horfinn. Nefna má hér Alþýðublaðið sáluga og Tímann.  Morgunblaðið hefur lifað af umbreytingar á fjölmiðlamarkaðinum, enda hefur blaðið leyft mismunandi skoðanir að koma fram, aftengt sig að mestu frá Sjálfstæðisflokknum en er því miður með tengsl við atvinnulífið sem teljast mega óæskileg og er hér verið að tala um eignarhald á fjölmiðlnum.  Blaðið og vefútgáfa þess, mbl.is hafa orð á sér að vera áreiðanlegir á meðan tengsl Fréttablaðsins og visir.is, eru greinileg við vinstri stjórnmálavænginn og stuðningurinn er auðljós ef litið er á ritstjórnargreinar og skrif fastapenna.

Það er ekki einkamál og í raun ábyrgðarmál, hvernig fjölmiðlar matreiða fréttir í almenning. Hér skiptir máli hverjir munda pennann og hvaða mál þeir nota.  Sjá má þetta einnig meðhöndlun þeirra á erlendum fréttum. Tökum hér dæmi.  Í dag er frétt um stríðið í Afganistan ber hún yfirskriftina ,,17 látnir eftir árás Talibana“.  Þar segir í fréttar að: ,,Forsvarsmenn Talibana heita því að gefa ekkert eftir í baráttunni við erlendar hernámssveitir í landinu.“  Þarna er rangt hugtak notað þegar talað er um hernámssveitir en er ekki ljóst að þessar erlendu hersveitir eru í boði löglegra og innlendra stjórnvalda? Frekar hefði mátt segja setuliðssveitir eða hreinlega að bæta við orði og segja erlendar hersveitir.

Fjölmiðlar eru fljótir að taka upp ný orð sem borinn eru á borð og án athugasemda. Nú er til dæmis farið að nota hugtakið þungunarrof í stað fóstureyðingu. Það er ljóst að fyrra orðið er veigrunarorð en verra er að það lýsir ekki verknaði rétt.  Rof er eitthvað sem er hægt er að laga eða taka til baka sem er auðljóslega ekki hægt í þessu tilfelli. Fóstureyðing er réttnefni, að fóstri er eytt og það er óafturkræft. Hér er engin afstaða tekin til hvort það sé siðferðislega rétt að gera þetta eða ekki, bara verið að benda á að með því að skipta um hugtök, breytist verknaðurinn og áhrif hans í hugum lesenda. 

Sum orð sem notuð voru áður fyrr, voru auðljóslega niðrandi og ekkert að því að skipta þau út. Tökum sem dæmi orð eins fáviti, kynvillingur, negri og af mörgu er að taka. En orðið eða hugtakið sem kemur í staðinn, verður að vera lýsandi, hlutlaust og bera með sér virðingu fyrir viðfangsefninu.

Í einni frétt Morgunblaðsfréttamanna er talað um að fjórir Palestínumenn hafi verið ,,myrtir“ í landamæraátökum sem nú eiga sér stað við Gasa.  Það eru gildishlaðin orð og lýsa ef til vill ekki það sem átti sér stað.  Það er alveg ljóst að þeir voru drepnir í pólitískum átökum milli tveggja þjóða eða landa og í slíkum tilfellum er alltaf talað um menn hafi verið felldir eða drepnir. Nema þeir hafi verið teknir inn í lögreglustöð og myrtir þar eða teknir af líf með aftöku en svo var ekki í þessu tilfelli. Blaðamaður er greinilega að taka afstöðu með öðrum aðilinum en lesendur nokk sama hver afstaða blaðamannsins er, þeir vilja bara fá hlutlausar fréttir.

Hér er ekki ætlunin að ræða sérstaklega þriðja fyrirbrigðið en það er þöggun og áhugaleysi fjölmiðla á sumum málefnum, hópum eða einstaklingum. Það er efni í nýja grein.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR