Eru Bandaríkin á fallandi fæti sem stórveldi?

Svo mætti ætla ef litið er á daglegar fréttir og álit svokallaða sérfræðinga en þeim er tíðrætt um óhjákvæmilega hnignun Bandaríkjanna. Í alþjóðlegum könnunum er greint frá lélegu gengi bandarískra nemenda í stærðfræði en einnig er mönnum tíðrætt um fátækt, misrétti og margvísleg félagsleg vandamál í landinu. Sérfræðingarnir halda að uppgangur þjóða byggist á náttúrulögum, það sem fer upp, hlýtur að ná hámarki og svo falla niður. Að hér sé aðdráttaraflið að verki. Ef svo er, hvenær ná Bandaríkin hámarki sínu í hernaðar- og efnalegri getu? 

Ef litið er á stöðuna í dag og allt aftur til loka seinni heimsstyrjaldar, hafa Bandaríkin haldið stöðu risaveldis en á dögum kalda stríðsins deildu þau stöðunni með Sovétríkjunum. Síðan um 1990 hafa Bandaríkin verið eina risaveldið en margar þjóðir hafa reynt að ná stöðu þeirra og má þar nefna gamalkunnug stórveldi eins og Rússland, Kína, Japan, Bretland, Þýskaland og síðan má búast við að Indland og Brasilía bætist í hópinn.  En til þess að geta talist vera risaveldi, verður viðkomandi ríki að hafa tvenns konar völd. Annars vegar hernaðarlega yfirburði en hins vegar efnahagslega.  Ekkert ofangreindra ríkja hafa hvorutveggja né jafnvel haft yfirburði yfir Bandaríkin á öðru hvoru sviðinu.

Eins og augað eygir er fyrirsjáanlegt að Bandaríkin verða leiðtogaríki næstu áratugi. Það hefur verið það undanfarna áratugi með fordæmi sínu, með því að beita valdi sínu af hófsemi (miðað við hernaðargetu þess), skilað unnum landsvæðum til baka og unnið með öðrum ríkjum heims við lausn heimsmála.

Margt athugavert hefur verið við framferði Bandaríkjanna, í afskiptum þeirra af innanríkismálum annarra ríkja og hernaðarleg afskipti þeirra hafa verið blóðug drifin. En í heildina séð, hafa þeir beitt áhrifum sínu mildilega og verið fordæmisgefandi með framferði sinni. Sú tíð kann að vera að breytast, a.m.k. með núverandi Bandaríkjastjórn en hún hefur fyrst allra stjórna ekki falið vald sitt og beitt því án hiks og í trássi við vilja alþjóðasamfélagsins og -samtaka. Það fer að sjálfsögðu fyrir brjóst bandamanna sem og óvina  að sjá raunveruleikann sýndan beran og kaldan.

En lítum á undirstöður efnahagsveldis Bandaríkjanna. Í fyrsta lagi er landið víðfeðmt og hefur miklar náttúrulegar auðlindir og fólksfjöldinn er mikill. Hátt í 326 milljónir búa í Bandaríkjunum og allir íbúarnir njóta a.m.k. lágmarks menntun og félagslega vernd. Árlega flytjast um 1 milljón manna til landsins löglega og helmingur þeirra telst vera vel menntaðir einstaklingar og hafa þeir eða börn þeirra lagt grunninn að stærstu fyrirtækjum heims. Má hér nefna Apple, Yahoo, Tesla, Google og fleiri fyrirtæki. Allt eru þetta fyrirtæki sem hafa áhrif á daglegt líf Íslendinga.

Á tæknisviðinu skara Bandaríkin fram úr og eru leiðandi í tækni og má hér nefna sem dæmi hátækniiðnaðinn í Silicon Valley sem er leiðandi í hátækni.  Á sviði fjármála og viðskipta eru Bandaríkin leiðandi (Wall Street) og ná áhrif bandarískra fyrirtækja um allan heim. Áhrifin ná einnig hingað til Íslands, en hér hafa Bandaríkjamenn fjárfest í sílikoniðnaðinum og áliðnaðinum, svo eitthvað sé nefnt. Á sviði menningar er Hollywood leiðandi afl og hefur áhrif um allan heim, en hér má einnig nefna aðra menningastrauma, s.s. á svið lista. 

Í upphafi greinarinnar var minnst á lélegt gengi nemenda í stærðfræði og virðist það einnig eiga við um íslenska, en það hefur hins vegar ekki skilað sér í lélegum háskólum. Bandaríkin eiga 17 af 20 bestu háskólum heims samkvæmt rannsókn Shanghai háskólans en íslenskir háskólar komast hvergi á blað yfir 200 bestu háskóla heims.

Bandaríkin hefur öll einkenni þróaðs hagkerfis, með sinn gríðarlega útflutning á neytenda- og tæknivörum en einnig innflutningi á náttúruauðlindafurðum. Bandaríkin eru leiðandi í fjárfestingum erlendis með yfir 180 milljarða dollara fjárfestingu árlega, sem næstum tvöfalt meira en næsta þjóð gerir.

Bandaríkin eyða árlega milli 550  til 600 milljarða dollara í hernaðarútgjöld og afleiðingin er einn öflugast herafli í heimi. Verg landsframleiðsla nær upp í 16 trilljónir dollara (16 trillion dollars) sem er stjarnfræðileg há upphæð og er tvöfalt meiri en hjá Kínverjum sem hefur fjórfalt meiri mannfjölda. Hlutabréfamarkaður Bandaríkjanna, hefur alla tíð verið öflugur og, endurspeglar enn í forystu Bandaríkjanna í heimshagkerfinu.

En hverjir eru áskorendur Bandaríkjanna um alþjóðaforystu? Evrópusambandið, Japanir eða Rússar? Innan ESB hefur verið tveggja stafa atvinnuleysi um áratuga skeið, nærri 26 prósent í Grikklandi og Spáni – næstum núll hagvöxtur og fækkandi íbúafjöldi í mörgum aðildarríkjum þess. Innflytjendur, oftast í formi flóttamanna, eru flestir ómenntaðir, leggja lítið til efnahag sambandsins og eru nú þungar birgðar á velferðakerfi aðildarríkjanna. 

Evrópusambandið virðist vera gliðna í sundur í marga hluta.  Í fyrsta lagi með Brexit, útgöngu Bretlands úr sambandinu en það er blóðugur biti fyrir það að gleypa.  Í öðru lagi virðist Evrópuríkin innan sambandsins vera að skipta í tvær blokkir, annars vegar hin gamalgrónu Vestur-Evrópu- og Skandinavíuríkin innan þess, en hins vegar í óformlegu samráði Austur- og Mið-Evrópuríkja og virðist bandalag þeirra einkum beinast að innflytjendastefnu sambandsins og misskiptingu auðæva. Í þriðja lagi má sjá misskiptinguna milli Suður-Evrópuríkja og Norður- og Vestur-Evrópu á sviði efnahagsmála.  Þessi tilvistakreppa mun ekki leysast næsta áratuginn og jafnvel leiða til falls Evrópusambandsins. 

Í Japan hefur efnahagskerfið staðið í stað áratugum saman, þótt þróað sé. Íbúum fækkar ört, sem svarar íbúafjölda Íslands á ári og engir innflytjendur til að fylla skörðin. Nikkei-vísitalan er enn meira en 20.000 stigum undir meðaltali 1988 og skuldir sem jafngildir 240 prósent af vergri landsframleiðslu. Landið er líka snautt af náttúruauðlindum og  virðist ekki líklegt til stórræða á næstunni.

Rússland hefur verið í sviðsljósinu lengi vel, m.a. vegna Ólympíuleika og þátttöku í Sýrlandsstríðinu, hertöku Krímskagans og meinta þátttöku í hernaðarátökum í Úkraníu. Hins vegar er Rússland efnahagslegur dvergur í samanburði við Bandaríkin og hefur efnahagsnið þriðja heimsríkis  og með aðeins 15% af vergri landsframleiðsla Bandaríkjanna per íbúa. Ríkið er óvinsælt innan alþjóðasamfélagsins og áhrif þess því takmörkuð. Enginn sérstakur hátækniiðnaður er í landinu og virðist tækniþekking Rússa beinast fyrst og fremst að tölvuhökkun, njósnir og hernaðaruppbyggingu. Menntastigið er gott en ekki sambærilegt við hið bandaríska. Ríkið reiðir sig á kjarnorkuvopnaherafla sinn, til að tryggja stórveldisstöðu sína.

En hvað með Kína og Indland? Bæði ríkin hafa tekið stórstígum skrefum á sviði efnahagsmála síðastliðna áratugi en stórkostleg vandamál hrjá þau eftir sem áður. Lítum fyrst á Kína.  Í landinu búa enn um 650 milljón manna við fátækt og landsframleiðsla á íbúa er $6,100. Ríkið er í 87 sæti hvað varðar landsframleiðslu per íbúa og nær varla 12% af landsframleiðslu Bandaríkjanna per íbúa. Líkt og í Rússlandi, er mikil opinber spilling og þar er við lýði einsflokka kerfi, skortur er á atgervissköpun og sjá má mjög lagskipt samfélag. Mikil mengun er í landinu, í lofti og lági sem og í jarðvegi og hefur leitt til fjölda dauðsfalla og minnkandi framleiðni. Kína er kjarnorkuveldi og hernaðarmáttur þess hefur aukist til muna síðastliðna áratugi en landið hefur lítil áhrif hernaðarlega séð á heimsvísu. Svæðisbundin áhrif, í Asíu, eru nokkuð mikil. Kínverskir leiðtogar hafa viðurkennt sjálfir, að ríkið muni ekki verða að fullu nútímaríki fyrr en um 2050.

Hvað varðar Indland, þá búa um 830 milljónir manna (næstum 70% af íbúafjöldanum) í sveitum landsins og eru þær að mestu fátækar. Þar hafa um 160 milljón manna lítinn eða lélegan aðgang að hreinu vatni, rafmagni eða hreinlætisaðstöðu. Mesti fjöldi ólæsra einstaklinga í heiminum er í Indlandi,en 35% þarlendra kvenna er ólæs. Ekki minna en 25% íbúana hefur engan aðgang að rafmagni. Innviðir landsins eru veikburða. Landsframleiðsla á íbúa er 1,500 dollarar og er Indland í 138 sæti hvað þetta varðar. Landið nær varla 3% af landsframleiðslu Bandaríkja per íbúa. 

Mikil spillingin er í landinu og fyrirsjáanlegur er mikill vandi hvað varðar íbúafjölgun. Landið þurfti að brauðfæða fleiri en 180 milljónir manna sem bættist við íbúafjöldann síðastliðin áratug og mun Indland verða fjölmennasta land í heimi innan skamms. Allur þessi aukafjöldi mun reyna á náttúru og innviði landsins enda bætist þetta fólk við fátækasta hluta íbúana. Millistéttin hefur þó stækkað og er líf standart hennar nokkuð sambærilegur við þá vestrænu. Indland er kjarnorkuveldi en hernaðargeta ríkisins er lítil.

Hér er Þýskaland látið liggja milli hluta en í stuttu máli má segja að ríkið er öflugt efnahagslega og hefur mikil áhrif innan stjórnmála Evrópu. Á alheimsvísu er það veikburða stjórnmálalega séð. Hvað varðar hernaðargetu, þá þarf ríkið að reiða sig á bandarískan herafla til að verja landið.Af öllu ofangreindu má álykta að næsta áratuginn, jafnvel næstu tvo áratugi, munu Bandaríkin leiða heimsstjórnmálin og halda stöðu sinni sem eina risaveldið, hvort sem mönnum líkar betur eða verr. Nema eitthvað óvænt gerist. Þjóðir þurfa því að líta framhjá núverandi stjórnmálaástandi í heiminum og ríkisstjórn Bandaríkjanna og horfa  fram á veginn.  Þær þurfa einnig að hugsa um stöðu sína gagnvart Bandaríkin í ljósi eigin hagsmuna. Þetta ættu Íslendingar, fremur margra annarra bandalagsþjóða Bandaríkjanna að hafa í huga. Eins og staðan er í dag, er landið ofurselt góðvildar Bandaríkjastjórnar hvað varðar mesta öryggismál þjóðarinnar sem eru varnarmálin.  Illum heillið hefur Ísland ekki gert neinar ráðstafanir til að auka sjálfstæði sitt á þessu sviði. 

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR