Tímamótatillaga frá formanni VR

Það var virkilega óvænt og ánægjulegt að heyra um þá tillögu Ragnars Þórs Ingólfssonar, formanns VR, að fyrirhuguð viðbótar vaxtalaus lán sem Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra hyggst koma í gagnið fyrir kaupendur fyrstu íbúða, ættu líka að vera í boði fyrir fólk sem missti heimili sín vegna hrunsins.

Stæðu slík lán því fólki einnig til boða væri það risastórt skref í að ná sáttum við mjög stóran hóp í þjóðfélaginu sem sætti óásættanlegu óréttlæti sem að stórum hluta má skrifa á aðgerðir og aðgerðaleysi stjórnvalda og er þá einkum átt við ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar. 

Aðgerðir þeirra og aðgerðaleysi varð þess valdandi að þúsundir íslenskra fjölskyldna var hreinlega hennt út á Guð og gaddinn af miskunarlausum fjárglæframönnum sem margir hverjir leika enn lausum hala í stjórnkerfi og fjármálakerfinu enda stóð sú ríkisstjórn að endurreisn fjármálakerfisins þar sem ekki aðeins innlendir fjárglæframenn fengu allt sitt til baka heldur var einnig vafasömum erlendum fjárglæframönnum boðið til leiks. Þegar upp var staðið hafði ríkisstjórn Jóhönnu og Steingríms ekki bara endurreist fjármálakerfið heldur hlaðið duglega undir fjárglæframennina að þeir mættu tvíeldir aftur á sviðið.

Erlendis hefur það gerst að ný kynnslóð stjórnmálamanna í ríkjum sem framið hafa glæpi gegn eigin þegnum og þegnum annarra ríkja hafa mannað sig upp í það að biðja fórnarlömbin afsökunar á gjörðum fyrri stjórnvalda.Tillaga foramnns VR er mikilvægari en margan grunar og er ígildi afsökunarbeiðni til þessa fólks sem leikið var grátt af ríkisstjórn vinstri flokkanna, ríkisstjórnarinnar sem lofaði skjaldborg um heimilin eftir hrunið, ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur og Steingríms J. Sigfússonar.

MEST LESIÐ

AÐRAR FRÉTTIR