Viðskipti | 20.February

Setur WOW á válista: Enn kvartað vegna þjónustu WOW air

Flugfélagið WOW air hefur oft verið í fréttum síðustu mánuði vegna ótrúlegrar framkomu við viðskiptavini sína og skinna.is hefur fjallað um. Margir þeirra sem ekki eru sáttir við hvernig félagið og starfsfólk þess hefur komið fram, þegar eitthvað hefur komið upp á, eru ekki feimnir við að tjá sig um það opinberlega. Nú síðast ritar óánægður farþegi, Önundur Jónsson fyrrverandi yfirlögregluþjónn á Ísafirði grein í Morgunblaðið síðastliðinn laugardag, um framkomu félagsins í sinn garð og eiginkonu sinnar þegar þau voru á leið heim frá Möltu í nóvember 2016 og kallar hann flugfélagið óheiðarlegt. Inn í frásögnina blandast líka óánægja með Lufthansa sem fær ekki betri einkunn.

#aldreiafturWOW

Í byrjun árs fjallaði skinna.is um annan farþega og viðskiptavin WOW air, Elsu Maríu Jakobsdóttur, sem hafði stofnað millumerkið #aldreiafturWOW á Twitter vegna óánægju með framkomu starfsfólks WOW air í sinn garð á Keflavíkurflugvelli.

Eins var sagt frá konu sem var ekki hleypt um borð í flugvél WOW air til Kaupmannahafnar vegna þess að flugfélagið viðurkennir ekki Norræna vegabréfasamninginn.

Í öllum tilfellum urðu farþegar fyrir fjárhagstjóni og töfum. Allar eiga þessar frásagnir það sameiginlegt að mjög erfitt er að ná í nokkurn mann til svara hjá WOW air og fá skýringar eða bætur. Ef hringt er utan skrifstofutíma þá er svarað í símann af Indverja, segir Önundur í grein sinni í Morgunblaðinu og skilja má að væntanlega sé símsvarandinn einhverstaðar í Indlandi og veit ekki hvað snýr upp eða niður í málinu. Fleiri slíkar sögur hefur skinna.is heyrt frá öðrum óánægðum farþegum sem reynt hafa að ná sambandi við flugfélagið WOW air í neyðartilvikum. Slíkar símaþjónustur eru þekktar hjá stórfyrirtækjum sem spara sér stórar upphæðir í laun og kostnað með því að láta fólk í þriðjaheiminum svara í símann eftir lokun skrifstofu.

Gafst upp eftir að hafa hlustað á Bylgjuna í 20 mínútur

Önundur Jónsson segist hafa reynt að ná í WOW air í síma en gefist upp eftir 20 mínútur. Hann segist þá hafa hringt í dóttur sína, áður en hann fór í flug til London með Air Malta, og ætlaði dóttirin að ná sambandi við WOW air og breyta miðanum.

„Þegar við lentum á Heathrow eftir tvo og hálfan tíma kom svar dótturinnar um að hún væri búin að vera í símanum nánast allan tímann síðan ég hringdi í hana og að henni hefði loksins tekist að fá Indverjann, sem svaraði í símann fyrir WOW, til að skilja að það var beðið um breytingu á farseðlum frá London í staðinn fyrir Frankfurt. Loksins breytti hann farinu okkar, en var jafn skilningssljór vegna breytingarinnar. En breytingin kostaði sitt. Við vorum búin að borga Frankfurt-Ísland 34.195 en breytingin kostaði 28.792 krónur. Flug hjá WOW var því London-Keflavík 62.987. Til að bíta höfuðið af skömminni var auglýsing í blaði um borð í WOW-vélinni: - London-Keflavík með WOW 9.900 aðra leið.-

Okkar fargjald því rúmlega 300% hærra. Lággjaldaflugfélag, nei ekki í mínum huga,“ segir Önundur Jónsson í grein sinni í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag.

Hann lýkur umfjöllun sinni og segir: „Lufthansa og WOW fara á válista hjá mér. Lággjaldaflugfélag, neytendaþjónusta – nei takk, það er ekki til þarna.“