Viðskipti | 02.August

Óskipulag við bensínstöð Atlantsolíu í Hafnarfirði

Fyrirtækið Atlantsolía á heiður skilinn fyrir að veita Costco verðuga samkeppni í bensínverði á stöð sinni við Kaplakrika í Hafnarfirði. Þó bensínverðið sé ekki jafn lágt og hjá Costco hefur lága verðið slegið í gegn þar sem því fylgir engin skuldbinding að versla hjá Atlantsolíu. Allir geta tekið bensín og þurfa bíleigendur ekki að vera með bensínlykill hjá Atlantsolíu til að kaupa bensín á lága verðinu, á þessari stöð, sem er 195,90 krónur.

Það er bara eitt sem skyggir á þegar mikið er að gera. Þá verður kaos vegna þess hve svæðið er lítið og stundum nær biðröðin út á veg og tefur fyrir annarri umferð. Enn verra er þegar leiðinda bílstjórar „svindla“ sér fram fyrir röðina með því að skjóta sér inn frá þeim enda sem gera mætti ráð fyrir að væri útkeyrsla fyrir þá sem þegar eru búnir að taka bensín. Lesandi skinna.is sendi okkur þessa mynd með þeim orðum að hann varð vitni af því að leigubílstjóri kom brunandi inn á „móti umferð“ og renndi sér á tank sem var laus meðan bíll sem var í biðröðinni var að gera sig kláran til að færa sig að honum. Úr þessu urðu leiðindi en það er réttmæt ábending að Atlantsolía hefur ekki sett um nein skilti til leiðbeiningar um hvernig umferðin ætti að ganga fyrir sig. „Betra væri að félagið tæki af skarið með leiðbeiningar skilti svo menn freistist ekki til að láta hendur skipta,“ fylgdi með í skilaboðunum með þessari mynd sem tekin var í gær 1. ágúst.