Viðskipti | 08.August

Lokaði fyrir verslun með hlutabréf Tesla

Nasdaq lokaði fyrir kaup og sölu hlutabréfa Tesla eftir að Elon Musk viðraði þá hugmynd sína að taka fyrirtækið úr kauphöllinni. Kauphöllinn Nasdaq brást við með því að loka á verslun með bréf Tesla korteri fyrir lokun markaða.

Musk hafði á síðasta þriðjudag tíst um þessa hugmynd sína og nefndi hann þá að ætlunin væri að taka Tesla af markaði þegar gegni bréfanna væri komið í 420 dollara enda væri fjármögnun rekstrar að öðru leiti tryggð. Þetta virðist hafa hleypt kappi í ýmsa fjárfesta og byrjuðu hlutbréf Teslu strax að hækka í verði og höfðu hækkað um 11 prósent við lokun markaða í gær.

Vonast til að koma höggi á spákaupmenn

Musk sagðist með þessu vonast til að koma höggi á spákaupmenn sem væru að veðja á lækkun hlutabréfa fyrirtækisins. Hann sagði að þegar fyrirtækið yrði tekið af markaði vonaðist hann til þess að myndast hefði hópur öflugra fjárfesta sem myndu tryggja framtíð félagsins enda yrði hann áfram forstjóri þess. Hann tók líka fram að ef þessi áform hans myndu ekki heppnast hefði hann ekki í hyggju að láta af forstjórastöðunni.

Segja yfirlýsingar Musks á gráu svæði

Ýmsir greinendur í fjármálageiranum segja að yfirlýsingar Musks séu á gráu svæði því hann sé að reyna að hafa áhrif á verð hlutabréfa Tesla. Það sé ein af ástæðum þess að Nasdaq ákvað að loka fyrir kaup og sölu á hlutabréfum Tesla í gær.