Viðskipti | 13.September

Danska samfélagið tapar milljörðum vegna kvóta

Það eru engir smápeningar sem danska samfélagið hefur tapað með einkavæðingu fiskveiða segir Poul Degnbol prófessor við háskólann í Álaborg. Hér er hann að tala um kvótakerfið sem sett var á í sjávarútvegi. Í viðtali við danska ríkisútvarpið um málið spyr Degnbol að því hvernig það megi vera að fiskveiðiauðlindin sé meðhöndluð á allt annan hátt en aðrar náttúruauðlindir eins og til dæmis gas og olía. Þegar leyfum til gas og olíuvinnslu er úthlutað þá er búið svo um hnútana að ákveðin hluti ágóðans fer til ríkisins og allt samfélagið hagnast. „Það er bara ekki tilfellið með fiskikvóta,“ segir Degnbol.

Það sé fámennur hópur útgerðarmanna sem sé að fá gríðarlegar fjárhæðir í eigin vasa.

Degnbol segir: „Venjulega þegar menn einkavæða sameiginlegar auðlindir þá er það gert með útboði sem að hefur það að markmiði að fá ákveðin gróða inn í samfélagið. Þetta hafa menn gert í öðrum tilfellum, til dæmis með olíu og gas, en líka farsímatíðnir. En það hefur ekki gerst í þessu tilfelli.

Það má spyrja hvort meðhöndla eigi fiskveiðiauðlindina öðruvísi en aðrar. Það er mjög óvenjuleg.“

Hann bendir á að þó útgerðin borgi skatt til ríkisins þá hefur ríkið samt orðið af milljörðum króna samkvæmt rannsókn sem danska Efnahagsráðið gerði árið 2012. Sú rannsókn sýndi að samfélagið verður af peningum, vegna kvótans, á bilinu 4 – 10 milljarðar danskra króna allt upp í 170 milljarða íslenskra króna.

Hann fullyrðir að stjórnmálamenn hafi vel vitað að því að þeir væru að láta frá sér framtíðararð til samfélagsins.

Samkvæmt Ríkisendurskoðun frá því í ágúst í ár kemur fram að kvótinn er sífellt að færast á færri hendur og tíu stærstu útgerðarfélögin eiga nú 80 prósent af makrílkvótanum í Norðursjó / Skagerrak og í Kattegat.

Kvótinn seldur úr landi

Nú hafa miklar deildur spunnist í Danmörku vegna sölu á kvóta til sænskrar útgerðar. Forsvarsmenn smábátaútgerða eru æfir og telja mikla hættu á ferðum fyrir danskt samfélag og útgerðina í landinu. Komið hefur í ljós að sænskar útgerðir eiga nú 23 prósent kvótans í algengum tegundum. Þetta virðist koma stjórnmálamönnum á óvart sem sumir hverjir hafa krafist þess að komið verði í veg fyrir sölu fiskikvóta úr landi.