Viðskipti | 28.August

Bensínverð á Íslandi: Atlantsolía langt á eftir Orkunni og Costco í bensínverði

Atlantsolía má muna fífil sinn fegurri frá því fyrirtækið kom inn á íslenskan markað 2002 með því loforði að „bjóða ávallt samkeppnishæft verð á eldsneyti...,“ eins og segir á heimasíðu félagsins. Af íslenskum olíufélögum virðist Orkan vera að standa sig langsamlega best gagnvart sínum viðskiptavinum. Í Kópavogi eru stöðvar Atlantsolíu og Orkunnar staðsettar steinsnar frá hvorri annarri við Skemmuveg. Verð á bensínlítranum á sjálfsafgreiðslustöð Orkunnar við Skemmuveg í Kópavogi er 178,60. Atlantsolía er með sjálfsafgreiðslustöð skammt frá, við BYKO, en verð Atlantsolíu á bensínlítranum er 186,40 sem er töluvert hærra en hjá Orkunni. Orkan býður þetta verð sem almennt verð undir nafninu Orkan X á fleiri sjálfsafgreiðslustöðum eins og til dæmis á Eiðistorgi, við Miklubraut, Spönginni, Egilstöðum, Akureyri, Akranesi og Hveragerði.

Annarstaðar munar 10 aurum á Orkunni og Atlantsolíu. Það er aðeins í Hveragerði, Egilstöðum og Skemmuvegi sem Atlantsolía býður örlítið lægra verð en á öðrum stöðvum sínum, en verðið er þó hærra en hjá Orkunni. Bæði olíufélögin bjóða viðskiptavinum sínum upp á bensínlykill sem gefur afslátt af uppgefnu verði. Það á reyndar ekki við á þeim stöðvum Orkunnar X þar sem allmennt verð er 178,60. Þar gefur bensínlykill ekki afslátt frá verði. Hins vegar er ekki að sjá að bensínlykill Atlantsolíu nái lægsta verði Orkunnar X þó gefinn sé afsláttur allt að 5 krónum á lítrann.

Á heimasíðu Costco er ekki hægt að finna upplýsingar um nýjasta bensínverðið hjá þeim, en sjálfsafgreiðslustöð Costco hefur yfirleitt verið um 10 krónum ódýrari en ódýrasta íslenska olíufélagið.