Viðskipti | 18.October

Áróður um efnahagshrun fari WOW air í þrot: Verða skattgreiðendur látnir borga?

Eftir vel heppnað skuldabréfaútboð, að sögn forstjóra flugfélagsins WOW air, mun félagið nú hefja á ný flug til Ísraels en hætta við áfangastaði í Bandaríkjunum sem nýlega var byrjað að fljúga til, en þó bæta nýjum áfangastöðum við eins og Orlandó og einnig verður tilkynnt um annan nýjan áfangastað í Norður Ameríku fljótlega. Það vekur athygli að skyndilega er flug til Ísraels aftur komið á dagskrá eftir að hafa verið snögglega kippt úr áætlun eftir nokkrar ferðir fyrir um ári síðan. Það vekur einnig athygli að flug til Delí á Indlandi er boðað í tengslum við áðurnefnda nýja áfangastaði í Bandaríkjunum. Ljóst er að forstjóri félagsins telur að réttlætanlegt sé að það fjármagn sem fékkst til að bjarga félaginu frá gjaldþroti fyrir fáum vikum sé nóg til að hefja mikla útrás og muni jafnvel duga til að kosta fórnkostnað við að ná upp ábatasömu flugi til Ísraels sem engin eftirspurn var eftir fyrir rétt um ári síðan.

Skuldabréfaútboðið stóð tæpt

Skúli Mogensen játar óbeint í viðtali við ruv.is að skuldabréfaútboð félagsins hafi staðið tæpt. Hann boðar jafnframt að farið verði áfram í útrás og að leiðarkerfi WOW verði stækkað um heil 15% sem er ekki svo lítið af félagi sem var fyrir nokkrum vikum á barmi gjaldþrots. En því var haldið fram að ef félagið færi í gjaldþrot myndi það valda atvinnuleysi, hærri húsnæðislánum og verðbólgu á Íslandi. Þessu var meðal annars haldið fram af hagfræði prófessornum Þórólfi Matthíassyni í viðtali við stundina.is. Þórólfur er þekktastur fyrir dómsdagsspár um efnahagshrun og fátækt Íslands ef landið borgaði ekki Icesave skuldir Landsbankans þegar það mál var í hámæli og tók undir fullyrðingar um að landið yrði að Kúbu norðursins ef ekki yrði gengið að kröfum ESB, Breta og Hollendina.

Er verið að búa skattgreiðendur undir að greiða fyrir gjaldþrot WOW air?

Eins og allir vita var engin innistæða fyrir þessum fullyrðingum hagfræðiprófessorsins. Ljóst er að allt tal í þessa átt af ýmsum fjölmiðlum er ekkert annað en hræðsluáróður en líka er ljóst að svo virðist sem einhverjir ætlist til að íslenskir skattborgar greiði fyrir gjaldþrot WOW air þegar til þess kemur. Hvernig það muni valda atvinnuleysi, veðbólgu og hækkun húsnæðislána Íslendinga ef einkafyrirtækið WOW air fer á hausinn er algjörlega órökstutt og með ólíkindum.

Boðar frekari söfnun fjármagns

Skúli Mogensen boðar frekari söfnun fjármagns á næstunni þrátt fyrir að síðasta söfnun hafi staðið tæpt. Það sé nauðsynlegt, að hans sögn, til að tryggja frekari vöxt og útrás félagsins og það verði gert með hlutafjárútboði á næstunni.

Gamma með fjárfestingu fyrir tugi milljóna

Samkvæmt fréttum visir.is hefur fjárfestingasjóðurinn GAMMA keypt í WOW air fyrir um 270 milljónir en sjóðurinn stýrir meðal annars fjárfestingum fyrir íslenska lífeyrissjóði. Á heimasíðu GAMMA segir: GAMMA er með um yfir 140 milljarða króna í stýringu fyrir m.a. lífeyrissjóði, tryggingarfélög, innlendar og erlendar bankastofnanir, fyrirtæki og einstaklinga.