Viðskipti | 17.November

Aðgerðir gegn kvótakóngum

Þegar upp komst að nokkrir útgerðarmenn í Danmörku höfðu fundið leið framhjá þeim takmörkunum sem settar eru á kvótaeign fyrirtækja fór allt á annan endann í þjóðfélaginu og stjórnmálunum. Sjávarútvegur Dana byggir á kvótakerfi þar sem takmörk eða þak er sett á hversu mikinn kvóta hver útgerð eða einstaklingur má eiga. Þetta gera stjórnvöld til að forðast ástands eins og á Íslandi þar sem fiskiveiðikvóti er smátt og smátt að færast á færri hendur.

Nú hefur komið í ljós að sumir útgerðarmenn hafa farið í kringum reglurnar og safnað á sig kvóta fyrir mörg hundruð milljónir danskra króna. Þetta hefur leitt af sér vandræði fyrir smærri byggðarlög og hamlað nýliðun í greininni líkt og á Íslandi.

Krefjast uppstokkunnar og rannsóknar á eftirliti með kerfinu

Danski þjóðarflokkurinn og fleiri flokkar kröfðust uppstokkunar og rannsóknar á kvótakerfinu og eftirlitinu með því. Þáverandi ráðherra sjávarútvegsmála Esben Lunde Larsen var heldur tregur til breytinga en mjög hallur undir kvótakóngana eins og Danir kalla þá. Nú hefur forsætisráðherrann Lars Løkke Rasmussen tekið af honum málefni sjávarútvegsins og við málaflokknum tók Karen Ellemann. Hún hefur minni samúð með kvótakóngunum og náðst hefur samkomulag á þinginu um strangari reglur í kringum kvótakaup og sölu. Nú verður reglunum breytt þannig að ekki fari á milli mála hvert þakið í eign á kvóta er. Einnig verður stofnunin sem fylgjast á með að farið sé eftir reglunum efld til muna. Stoppað verður upp í þau göt sem kvótakóngarnir fundu á núverandi lögum og viðurlög við brotum á reglum hert. Kvótakerfið í Danmörku, og svindl kvótakónganna, hefur gert það að verkum að ungt fólk sem hefur áhuga á að stofna fyrirtæki í kringum útgerð er gert nánast ómögulegt að komast inn í greinina vegna þess háa verðs sem þarf að greiða fyrir skip og kvóta.

Reyndu kvótakóngar að hafa áhrif á rannsókn lögreglu?

Ríkisendurskoðun Dana hafi nokkrum sinnum bent á þá ágalla sem væru í lögum um fiskveiðar og kvóta. Málið byrjaði í sumar þegar embættismaður í Landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneytinu skrifaði lögregluyfirvöldum og óskaði eftir því að kæra sem send hafði verið frá Fiskistofu þeirra Dana, vegna lögbrota nokkurra kvótakónga í kvótakerfinu, yrði dregin til baka. Málið komst í fjölmiðla. Almenningur og stjórnmálamenn kröfðust skýringa. Embættismaðurinn var að lokum rekinn og nú hillir undir ennþá strangari lög gegn kvótabraski í Danmörku.