Sögumolar | 02.March

Upplausn og öngþveiti í íslenskum stjórnmálum

Hversu oft hefur ekki verið upplausn og öngþveiti í íslenskum stjórnmálum og á Alþingi? Fréttin er frá árinu 1983 og ekki er að sjá að ástandið hafi batnað með árunum. Virðing Alþingis hefur farið jafnt og þétt þverrandi samkvæmt skoðanakönnunum. Sömuleiðis hefur kosningaþátttaka farið þverrandi og nú er svo komið að Alþingsmönnum dettur ekkert betra í hug en að lækka kosningaaldurinn niður í 16 ár í staðin fyrir að auka vald kjósenda með íbúðalýðræði og þjóðaratkvæðagreiðslum og auka þannig áhuga kjósenda á að taka þátt í lýðræðinu og hugsanlega bæta þannig kosningaþátttöku.

„Upplausn ríkti í upphafi ársins í stjórnmálum og efnahagsmálum. Samsteypustjórn Framsóknarflokks, Alþýðubandalags og þriggja Sjálfstæðisflokksmanna undir forsæti Gunnars Thoroddsen hafði misst meirihluta sinn á þingi og kom málum ekki fram, enda ríkti óeining og sundurlyndi milli stjórnaraðila. Stjórnmálaflokkarnir voru sammála um að boðað yrði til kosninga um vorið. Hrikaleg staða í efnahagsmálum, óðaverðbólga magnaðist stöðugt og ný verðbólgumet voru slegin við hvern útreikning. Seðlabankinn birti opinberlega viðvaranir vegna efnahagsvandans, óðaverðbólgunnar, gífurlegrar skuldasöfnunar erlendis og viðskiptahalla. Þann 14. febrúar gerðust þau tíðindi, að Alþingi samþykkti bráðabirgðalög ríkisstjórnarinnar frá því í ágúst árið áður og þótti athyglisvert að Sjálfstæðisflokksþingmenn sátu hjá við atkvæðagreiðsluna, þótt þeir hefðu barizt hatrammlega gegn þeim. Þá lagði forsætisráðherrann fram efnahagsmálafrumvarp, sem m.a. afnam vísitöluhækkanir launa 1. marz, en frumvarpið naut einskis stuðnings, hvorki í ríkisstjórn né Alþingi. Myndin er frá atkvæðagreiðslunni sögulegu um bráðabirgðalögin í neðri deild 14. febrúar. Sverri Hermannsson, forseti deildarinnar tilkynnir úrslit. “

Heimild og mynd: Árið 1983